148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við fengum kynningu núna á dögunum í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem ég var staðgengill hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur á verkefni varðandi læsi. Mér sýnist í fljótu bragði þetta vera fagleg vinna, að við séum á réttri leið, en eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér nefndi er þetta langtímaverkefni. Mér líst vel á það.

Mér líst líka vel á þann menntamálaráðherra sem við erum komin með, Lilju Alfreðsdóttur. Hún er fagmanneskja, hún er gríðarlega dugleg, hún kemur hlutum í verk. Mér finnst við vera í góðum höndum hvað varðar framhaldið.

Mig langar að nefna nokkur atriði sem er mikilvægt að hafa til hliðsjónar þegar kemur að lestri. Ég er sjálfur mjög lesblindur, ég les hægt enn þá, þ.e. ég er ekki beint lesblindur, en þegar ég les þá „speisast“ ég ekki út eins og ég gerði áður. Stundum gat ég ekki farið í gegnum eina línu, þá var hugurinn kominn eitthvert og ég fattaði það ekki fyrr en ég var kominn neðst á blaðsíðuna. Það var bara fyrir tilviljun að ég læknaði sjálfan mig af því með því að læra minnistækni. Því að um leið og maður getur haft mynd af orðinu í hausnum „speisast“ maður ekki út. Það er þessi David's-aðferð með leir og svoleiðis. Lykilatriði þegar kemur að því hvort maður sé með lesblindu er að maður fái þau úrræði sem aðstoða mann svo maður þurfi ekki að bíða þangað til maður lærir kannski einhvern tímann óvart, hugsanlega, mögulega, minnistækni eða rambar óvart á hlutina sjálfur. Það er mikilvægt að krakkar fái þá aðstoð sem þeir þurfa til þess að þetta sé ekki vandamál lengur. Þetta er ekki vandamál um leið og maður fær aðstoð.

Annað. Sjálfur er ég með bullandi athyglisbrest og ofvirkni, eins og það hét, en ofvirknin færist inn á við þegar maður eldist, pirringurinn er til staðar og svo framvegis. Það gerir það ofboðslega erfitt. Athyglisbrestur er ekki rétta orðið. Þetta er valkvæður athyglisbrestur. Að velja að beina athyglinni að því sem er fyrir framan mig. Ég get það eiginlega ekki. Ég er kominn með ákveðin lyf sem ég get tekið sem aðstoða mig við það en það er ofboðslega erfitt. Ég get sagt ykkur að mann verkjar í heilann ef maður þarf að gera það. Þess vegna er svo mikilvægt að (Forseti hringir.) viðfangsefnið sé skemmtilegt þegar maður er að læra með ADHD. Því að ef það er skemmtilegt hef ég ofurathygli, þá get ég lært allan daginn það sem ég hef gaman af.

Ég myndi horfa til þess að passa upp á að gera það skemmtilegt fyrir börn að lesa, þá munu þau lesa.