148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hún er tímabær því að fyrir liggur áhugi nokkurra aðila á því að stofna lýðháskóla; LungA á Seyðisfirði, sem byrjaði sem listahátíð ungs fólks; áhugamanna um stofnun lýðháskóla á Flateyri, sem farið hafa af stað með verkefni þar; og Ungmennafélags Íslands, sem hefur hug á að stofna lýðháskóla á Laugarvatni.

Eins og hv. þingmanni er kunnugt um samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um lýðháskóla 2. júní 2016 þar sem mennta- og menningarmálaráðherra var falið að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar löggjafar um lýðháskóla á Íslandi. Markmið löggjafarinnar er að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntun sem njóti lagalegrar umgjarðar og stuðnings hins opinbera. Við vinnuna skyldi horft til þess fyrirkomulags sem gildir um starfsemi lýðháskóla annars staðar á Norðurlöndunum. Var að því stefnt að ráðherra legði fram frumvarp til laga um lýðháskóla eigi síðar en á vorþingi 2017.

Ég hef ákveðið að hefja aftur vinnu við gerð frumvarps sem tengist lýðháskóla með því að meginmarkmiði að búa til umgjörð í kringum starfsemi þeirra að norrænni fyrirmynd.

Það eru mörg álitamál sem taka þarf tillit til við gerð laganna, svo sem hvar ákvarðanatakan um stofnun slíks skóla eigi að liggja, hver eigi að kosta skólana, hvernig eftirliti skuli háttað og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að teljast lýðháskóli. Auk þessa þarf að taka ákvörðun um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga gagnvart lýðháskólum, svo fátt eitt sé nefnt.

Mikilvægt er að skoða tengsl lýðháskóla og annarra menntastofnana, svo sem fræðslusetra sem sinna framhaldsfræðslu fyrir fullorðna, framhaldsskóla og háskóla. Spurningum, eins og t.d. hvort nám við lýðháskóla verði einingabært til náms í framhalds- eða háskóla, þarf einnig að svara og eins hvernig námið verði metið.

Samkvæmt norrænni lýðháskólahefð er almennt ekki um að ræða formlegt námsmat og námið ekki einingabært til framhalds- eða háskóla þó að á því séu fáeinar undantekningar. Í Svíþjóð eru t.d. lýðháskólar með nám á framhaldsskólastigi sem metið er til eininga, en svo er ekki í Danmörku. Þar er áhersla á að ekki sé námsmat í lýðháskólum og námið sé ekki skipulagt sem hluti af námi framhalds- eða háskóla. Þó eru einstaka háskólar í Danmörku sem metið hafa nám í einstaka lýðháskólum til eininga á fáeinum brautum. Það mat byggist á samstarfi viðkomandi lýðháskóla og háskóla. Þrátt fyrir að ekki sé formlegt námsmat í lýðháskólum verður háskólinn að meta námið til eininga.

Við 3. umr. fjárlaga 2017 kom inn í fjárlög tímabundið framlag að fjárhæð 15 millj. kr. til eins árs til að þróa verkefni um lýðháskóla. Í ljósi stöðunnar sem upp var komin haustið 2017 var ákveðið að 5 milljónir af því framlagi rynnu til Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og 5 milljónir til LungA á Seyðisfirði og þeim falið að vinna verkefni um lýðháskóla. Ákveðið var að halda eftir fjármunum til þess að vinna að samningu frumvarps til þess að við myndum styrkja lagalega umgjörð í kringum lýðháskóla.

Virðulegi forseti. Ég vil skoða þessi mál með opnum huga og ljúka við vinnu við að búa þessum skólum lagalegan ramma, þar á meðal að skoða hver aðkoma opinberra aðila að fjármögnun þessarar starfsemi eigi að vera. Ég tel að lýðháskólar geti gegnt mjög mikilvægu hlutverki er varðar menntastefnu á Íslandi og hníga mjög góð rök í þá átt að þarna sé hægt að mæta þörfum fjölbreyttari nemendahóps. Reynslan af lýðháskólum í Danmörku er mjög góð. Mér finnst þetta mjög spennandi verkefni sem við ætlum að fara í í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.