148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn frá hv. þingmanni og jákvæðum svörum frá hæstv. ráðherra.

Í stofnun lýðháskóla á Flateyri felast uppbyggileg og raunhæf áform að mínu áliti. Ísafjarðarbær er rótgróið menningarsamfélag, en Flateyri er hluti hans. Þar iðar allt af félags-, íþrótta-, mennta- og menningarlífi. Flateyringar eru alvanir að taka á móti gestum, bæði Íslendingum og fólki frá öllum heimshornum og eru höfðingjar heim að sækja. Sá sem hér stendur mælti fyrir þingsályktunartillögu í liðinni viku um stofnun vestnorrænna eftirskóla eins og tíðkast hafa í Danmörku og víðar, tillögu sem yrði samstarfsverkefni Íslands, Grænlands og Færeyja. Það er áhugavert að skoða hvort sú tillaga gæti fallið að áformum um stofnun lýðháskóla á Flateyri.

Flateyri er við sjávarsíðuna þar sem sjósókn hefur borið uppi lífið og störfin líkt og á við um vestnorrænu löndin sem við eigum í samstarfi við. Atvinnulegur og menningarlegur skyldleiki er því talsverður.

Herra forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra að taka þessum áformum fagnandi og styðja þau með ráðum og dáð.