148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

heilbrigðisáætlun.

196. mál
[17:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ætla að freista þess að svara spurningunum í þeim liðum sem koma fram í máli hv. þingmanns.

Í fyrsta lagi spyr þingmaðurinn um tímarammann og við hverja verði haft samráð. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur skýrt fram að ríkisstjórnin muni fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Í stefnuyfirlýsingunni segir einnig að mótuð verði markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Það er markmið mitt að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu á komandi þingi, þ.e. 149. löggjafarþingi, veturinn 2018–2019. Í framhaldi af þeirri vinnu mun velferðarráðuneytið vinna aðgerðaáætlun á grundvelli stefnunnar. Ég hyggst einnig halda heilbrigðisþing næsta haust, vonandi í októbermánuði, dagsetningin hefur ekki verið fastsett, þar sem hægt verður að dýpka umræðuna um einstaka þætti heilbrigðisstefnunnar.

Hv. þingmaður spyr um þjónustu einstakra aðila heilbrigðisþjónustunnar. Er því til að svara að lykilviðfangsefni stefnunnar hvað varðar þjónustu Landspítala og einstakra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hafa í raun ekki verið skilgreind enn þá, en í lögum um heilbrigðisþjónustu er sérstaklega rætt um starfsemi Landspítalans. Í þeim lögum er hann skilgreindur í samræmi við stöðu sína í heilbrigðiskerfinu sem aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Landspítalinn veitir sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, m.a. á göngu- og dagdeildum, fyrir alla landsmenn og almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins. Hlutverk spítalans er nánar tilgreint í fimm töluliðum í lögum um heilbrigðisþjónustu. Þar kemur m.a. fram að spítalanum beri að veita sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði og hjúkrunarfræði sem stundaðar eru hér á landi með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknardeildum.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er einnig kveðið á um starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri, starfsemi umdæmissjúkrahúsa, starfsemi sérhæfðra heilbrigðisstofnana, auk þess sem fjallað er um veitendur sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu og skipulag almennrar og sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu.

Í vetur sem leið, eða snemma í haust, var skipaður starfshópur í heilbrigðisráðuneytinu sem hefur það hlutverk að greina hvaða sérfræðilæknaþjónusta er þegar fyrir hendi innan heilbrigðisstofnana, á hvaða formi slík þjónusta er veitt og hvernig samstarfi stofnana er háttað. Hópurinn hefur líka það hlutverk að greina hvaða þjónustu væri æskilegt að veita á heilbrigðisstofnunum landsins og hvernig væri best að tryggja aðgengi sjúklinga að þeirri þjónustu. Þessi starfshópur mun skila niðurstöðu sinni og sú vinna mun síðan nýtast við gerð heilbrigðisstefnunnar.

Hv. þingmaður spyr um landfræðilega þætti. Það er auðvitað lykilviðfangsefni stefnunnar að tryggja jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að það sé óháð búsetu og það er ákveðið leiðarstef. En eins og hér hefur komið fram og kom raunar fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag verður það að lúta ákveðnum takmörkunum. Þá þurfum við að skilgreina hversu miklar þær takmarkanir mega vera og hversu langt má vera að sækja þjónustuna á hverjum stað. Þetta þurfum við að skilgreina.

Í hverju heilbrigðisumdæmi er starfrækt heilbrigðisstofnun eða stofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæmunum og við setjum síðan í reglugerð nánari reglur um starfsemi heilbrigðisstofnana í hverju umdæmi og þá heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt.

Hv. þingmaður spyr um forvarnir, lýðheilsu, íbúaþróun o.s.frv. Fram kemur í stefnuyfirlýsingu að sérstök áhersla verði lögð á forvarnir og lýðheilsu, en þar tel ég að við ættum að nýta miklu meira en við gerum lýðheilsuvísa sem settir eru fram eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi sem embætti landlæknis heldur utan um og er liður í að veita yfirsýn yfir lýðheilsu í hverju umdæmi fyrir sig í samanburði við landið í heild. Þeim lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna o.s.frv.

Hv. þingmaður spyr um gerð heilbrigðisáætlunar og hvort hægt sé að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Það er auðvitað markmiðið að gera það og auka samspil milli einstakra þátta þjónustunnar.

Loks spyr hv. þingmaður um samstarf við haghafa og tiltekin ráðuneyti og kem ég vonandi betur að því í síðara svari mínu, en við höfum þegar hafið kortlagningu að þeim samstarfsaðilum.