148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun undir fyrirsögninni „Sjá fyrir endann á uppsveiflunni“. Þar birtist gamalkunnugt graf sem sýnir raungengi krónunnar frá því í janúar árið 2000 til janúar á þessu ári. Mælikvarðinn er settur á 100 í janúar árið 2005 en þá kostaði ein evra 84 kr. Í grafinu kemur fram að í janúar árið 2000 var gildið 88. Þá kostaði evran 74 kr. Í nóvember 2008 var gildið 58 og evran kostaði 170 kr. Og í janúar á þessu ári er gildið 98 og evran kostar 126 kr.

Hver staðan verður að ári veit enginn. Ég ætla mér ekki að giska á það. En full ástæða er til að minna á þetta graf og þá sögu sem það segir um krónuna og vanda samkeppnisgreina sem standa frammi fyrir þessum miklu sveiflum. Grafið sýnir að framlag krónunnar til stöðugleika er ekki mjög beisið. Vandi heimila og fyrirtækja magnast upp með alvarlegum afleiðingum til lengri tíma og það er tómt mál að tala um nýsköpun, útflutning á hugviti og fjórðu iðnbyltinguna sem grundvöll vaxtar og velgengni á komandi árum og áratugum við þessar aðstæður.

Við verðum að horfast í augu við þennan herkostnað við krónuna og þá miklu áhættu sem hún hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag, íslensk heimili og íslensk fyrirtæki. Lausnin blasir við en allt of margir kjósa að stinga höfðinu í sandinn og vilja reyna einu sinni enn að láta reyna á ágæti krónunnar þótt allar fyrri tilraunir til þess að treysta á hana hafi (Forseti hringir.) runnið út í sandinn. Er ekki orðið tímabært að við horfumst í augu við staðreyndir?