148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[14:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það sem veldur manni áhyggjum við yfirferð þessa máls eru mjög samhljóma og sterkar athugasemdir sem fram koma í umsögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Við þekkjum öll það vandamál sem okkur hefur verið tíðrætt um, og er reyndar komið inn á í stjórnarsáttmálanum hjá núverandi ríkisstjórn, þ.e. um þær tafir sem hafa orðið á því að koma áfram verklegum framkvæmdum, nauðsynlegri innviðauppbyggingu í landinu, þar sem ófyrirsjáanleiki virðist vera mikill og kærufrestir og kærumál hafa dregið mjög úr því að menn komist áfram með mjög mikilvægar framkvæmdir og oft og tíðum virðist mér kannski vera lítill samningsgrundvöllur milli aðila hvert stefna eigi í því.

Ég ætla að vitna í það sem stendur í ríkisstjórnarsáttmálanum, með leyfi forseta:

„Þá eru ríkisstjórnarflokkarnir sammála […] um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála með það að markmiði að sá réttur sé tryggður á fyrri stigum leyfisveitingarferlis og málsmeðferð geti þannig orðið skilvirkari …“

Sérstakar áhyggjur eru vegna stjórnsýslumeðferða sem hafa tekið verulegan tíma. Í því má nefna til að mynda að Landsnet sem byggir upp meginflutningskerfi dreifikerfis raforku í landinu hefur ekki getað farið í lagningu á nýjum línum í tíu ár í meginflutningskerfinu með tilheyrandi afleiðingum fyrir byggðir landsins.

Svo segir hér að unnið verði að því og mikilvægt sé „að hraða málsmeðferð …“

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur m.a. fram að sambandið leggist hins vegar gegn þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem þær breytingar ganga að áliti lögfræðinga sambandsins mun lengra en nauðsyn krefur til að bregðast við ábendingum frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Síðan segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Lagabreytingin eykur flækjustig og málsmeðferðartíma í skipulagsmálum.

Nú þegar er möguleiki á því að kæra fyrirhugaðar framkvæmdir á mörgum stigum málsmeðferðar og á grundvelli mismunandi laga. Málsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er að jafnaði um 18 mánuðir og getur hvert málskot því valdið miklum töfum á framkvæmdum. Áherslu þarf að leggja á að stytta þennan biðtíma. Kostnaður sveitarfélaga og framkvæmdaraðila vegna kærumála getur orðið mjög mikill sem ekki getur talist æskilegt frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Fyrirhugaðar lagabreytingar virðast auka enn frekar á þann ófyrirsjáanleika og óöryggi sem nú þegar er til staðar.“

Ég vil nefna eitt dæmi um til þess að gera litla framkvæmd sem nú er í töfum vegna kærumála, en það er svokölluð Brúarárvirkjun í Bláskógabyggð fyrir austan, í efri hluta Tungufljóts. Þetta er 9,9 megavatta virkjun. Útgáfa sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi var kærð. Það voru tveir kærendur sem hvorugur hafði gert vart við sig þegar aðalskipulaginu var breytt til að gera nýtingu vatnsorkunnar mögulega. Það heyrðist ekkert frá þessum aðilum þegar deiliskipulag fyrir mannvirkin var gert, heldur ekki þegar öll mannvirkjagerðin fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Öllum skilyrðum sem höfðu verið sett í skipulags- og matsferlinu hafði verið fullnægt. Kæran sem kom síðan á síðasta stigi snerist um það hvort umhverfisnefnd sveitarfélagsins hefði formlega fjallað um málið og veitt umsögn til sveitarstjórnar, sem sagt tæknilegt atriði sem stóð á veikum grunni þar sem framkvæmdin hafði farið í gegnum bæði skipulagsferlin hjá sveitarfélaginu, auk þess sem það veitti umsögn í umhverfismatsferlinu.

Búið var að gefa grænt ljós á þetta verkefni, búið var að hefja nauðsynlegar framkvæmdir við vegalagningu, setja upp vinnubúðir og slíkt, þegar þessir aðilar sem aldrei höfðu gert athugasemdir í öllu matsferlinu ákváðu að kæra. Tjónið af þessu fyrir þá sem að þessu standa er verulegt. Reiknað er með að þetta geti verið um 40 milljónir á mánuði. Við sáum hvað málsmeðferðartíminn getur verið langur. Það var búið að bjóða verkið út. Þetta er dæmi um það hvernig þessi löggjöf virkar í dag. Það eru svona dæmi sem þeir umsagnaraðilar, sem ég er að vitna hér til, hafa í huga þegar þeir lýsa áhyggjum sínum af því að þetta frumvarp auki enn frekar á þetta flækjustig.

Það segir einnig í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Markmið breytinganna eru mjög óljós.

Ekki liggur skýrt fyrir hvaða vanda lagabreytingunni er ætlað að leysa. Einungis liggja fyrir óljósar aðfinnslur ESA um að íslenskum lögum sé að einhverju leyti áfátt. Æskilegt væri að fyrir lægju mun ítarlegri útskýringar með raunhæfum dæmum eða vísan til dómafordæma úr Evrópurétti um á hvern hátt löggjöf uppfyllir ekki kröfur tilskipunarinnar. Í þessu samhengi er lykilatriði að allir þeir sem málið varðar hafi sameiginlegan skilning á því hvað er átt við með athafnaleysi í skilningi á 11. gr. tilskipunar um mat á umhverfisáhrifum. Að áliti sambandsins er þetta hugtak túlkað mun víðar í frumvarpsdrögunum heldur en tilskipunin gefur tilefni til.“

Ég held við höfum öll heyrt þá umræðu á undanförnum árum og jafnvel áratugum að ákveðin tilhneiging hafi verið til þess í íslenskri stjórnsýslu almennt séð að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins sem oftast eru túlkaðar mikið af fagstofnunum viðkomandi ráðuneyta og innleiddar þannig í íslenska löggjöf.

Ég vil nefna eitt dæmi um það sem var nokkuð sláandi og vegur svo sem ekki þungt á hveitivoginni. Það var hið svokallaða möffinsmál sem einhver ykkar muna kannski eftir frá því fyrir nokkrum árum. Það snerist með öðrum orðum, eftir að við höfðum innleitt matvælalöggjöf Evrópusambandsins, um það að foreldrar barna í 4. flokki, ef ég man rétt, íþróttafélaga á Akureyri máttu ekki fara í möffinsbakstur til þess að fara í fjáröflun fyrir börnin sín, byggja upp ferðasjóð, nema fara inn í löggilt eldhús. Þetta hafði ratað í gegnum löggjöf sem innleiðing, nauðsynleg innleiðing, að mati sérfræðinga þeirra undirstofnana sem um þetta fjalla.

Þingið brást hart við þessu á þeim tíma. Ég sat þá í — ég man ekki hvort það var iðnaðarnefnd eða eftir að hún var sameinuð í atvinnuveganefnd, en við tókum málið til okkar og lögðum til breytingartillögur. Fulltrúar stofnunarinnar sem hér áttu undir komu til okkar á þeim tíma og sögðu að það væri þá alla vega nauðsynlegt að foreldrarnir eða kvenfélögin, sem sjá víða úti um land um erfidrykkjur o.s.frv., yrðu að sækja um formlegt leyfi og borga fyrir það gjald hjá stofnuninni. Við þingmenn vorum sammála um, þvert á alla flokka, að ýta þessu öllu út af borðinu og eyða svona vitleysu út úr löggjöfinni. Þetta var slys. Þau eru örugglega fleiri slysin sem hafa átt sér stað.

Það er ástæða fyrir því að staldra við og velta fyrir sér hvort hér geti verið um eitt slíkt að ræða, sem gengur jafnvel þvert gegn markmiðum þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að störfum og kemur fram í ríkisstjórnarsáttmálanum.

Það segir hér meira í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, með leyfi forseta:

„Almennt ætti ekki að vera þörf á því að veita kærurétt vegna þeirra ágalla á málsmeðferð sem lagabreytingin tekur til. Ágallar af þeim toga sem um ræðir hafa samkvæmt gildandi löggjöf flestir þau áhrif að kærufrestur lengist, enda telst ákvörðun stjórnvalds ekki komin til vitundar þeirra sem hagsmuna eiga að gæta fyrr en ákvörðun hefur verið birt. Erfitt er því að rökstyðja að málskotsheimild bæti réttarstöðu einhverra sem hagsmuna eiga að gæta á svo skýran hátt að það réttlæti lagabreytingu.“

Samtök atvinnulífsins slá svolítið sama tón í sinni umsögn um málið. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„… að þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu séu ekki úrlausn á efnisatriði rökstudds álits ESA. Ef Skipulagsstofnun láti hjá líða að kynna niðurstöður þannig að þær séu aðgengilegar almenningi hafi það áhrif á kærufresti vegna ákvörðunarinnar sem lengist þar til kæranda verður kunnugt eða mátti verða kunnugt um ákvörðunina. Samtökin skilja athugasemdir ESA þannig að kæruheimild verði að vera til staðar þegar Skipulagsstofnun láti hjá líða að taka ákvörðun. Úr því megi bæta með einfaldri breytingu á 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.“

Einnig segir:

„Eins og fram hefur komið er með frumvarpinu verið að leggja til breytingu á lögum nr. 106/2000 og lögum nr. 130/2011 þannig að til staðar verði sérstök kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis í tengslum við þátttökurétt almennings vegna mats á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda er falla undir lög nr. 106/2000. Kærurétt vegna ákvarðana er nú þegar að finna í ákvæðum laganna.“

Samband íslenskra sveitarfélaga „telur markmið breytinganna óljós, ákvæði 4. gr. frumvarpsins sé óþarft þar sem í 1. gr. laga nr. 130/2011 sé heimild til að vísa stjórnvaldsákvörðunum og ágreiningsmálum til úrskurðarnefndarinnar, lagabreytingin auki flækjustig og lengi málsmeðferðartíma í skipulagsmálum, hætta sé á að lagabreytingin hafi fordæmisgildi við frekari breytingar á löggjöf um skipulags- og umhverfismál löggjöf …“ — Sem sennilega er mikið tilefni til þess að taka til rækilegrar endurskoðunar og endurskoða frá grunni.

Það er kannski ágætt að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um það hvar sú vinna standi, hvert umfangið sé, vegna þess að önnur mál eru þarna í undirbúningi sem eru að mér skilst þegar í ágreiningi við sömu aðila.

Við mat á áhrifum af þessu frumvarpi kemur í ljós að búast megi við að kærum til úrskurðarnefndar fjölgi í kjölfar þessara breytinga. Varla er það þá til þess ætlað að ná því markmiði að hægt verði að hraða málsmeðferð. Einnig er reiknað með því að kostnaður af „einhverri fjölgun kærumála“ eins og það er orðað í greinargerð með frumvarpinu, þótt óvissa sé vissulega um umfangið. Það þykir rétt að gera ráð fyrir því.

Í frumvarpinu segir:

„Rétt er að benda á að málafjöldi sem er til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er verulegur og var málshraðinn hjá nefndinni á árinu 2017 u.þ.b. níu mánuðir að meðaltali í hverju máli en lögum samkvæmt er reiknað með þriggja til sex mánaða afgreiðslutíma hjá nefndinni. Fjölgun kæra gæti haft áhrif á málshraða til hins verra. Niðurstaða ráðuneytisins er að aukið umfang úrskurða geti kallað á aukin útgjöld úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til frambúðar og því er sem varúðarráðstöfun gert ráð fyrir að þau útgjöld muni nema einu stöðugildi.

Áhrif frumvarpsins á framkvæmdaraðila felast helst í því að tafir geta orðið á framkvæmd ef málsmeðferð vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar dregst á langinn.“

Virðulegur forseti. Bara svo allur misskilningur sé leiddur í jörð varðandi það tel ég umsagnarferli og umhverfismat mjög mikilvægan þátt í okkar starfi. Hægt er að taka hatt sinn ofan fyrir þeim sem hafa lagt áherslu á þessi mál á undanförnum árum og sjá þann árangur og þá breytingu sem hefur orðið á málsmeðferðum okkar hvað þessi mál varða. Ég held við séum öll sammála um að það hafi verið mjög mikilvægt og við eigum að halda áfram á þeirri vegferð.

Hitt er svo annað mál að þegar maður heyrir það víða innan úr stjórnsýslunni hjá sjálfstæðum samtökum úti í bæ að það sé orðin geðþóttaákvörðun embættismanna stofnana sem oft ráði því hvaða mál fari í umhverfismat, að mál eigi að fara hinar og þessar leiðir, lögin séu ekki nægilega skýr, þá er orðið tilefni til að hefja hér heildarendurskoðun. Mér er til efs að sá ágreiningur sem er við þá aðila um þetta stóra mál geti orðið til þess að við getum leyst þetta í einhverjum friði. Ég held að þá sé tímabært að við dustum rykið af því og stígum í þessu stærri skref og reynum að ná þeim markmiðum sem koma fram í samstarfssáttmála núverandi ríkisstjórnar.