148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[14:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og þá sérstaka kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagninguna og ræðu hans hér áðan.

Mig langar aðeins að koma inn á heildarmyndina og hræðslu mína við að hún sé orðin of flókin. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á það áðan að þetta væri kannski tiltölulega flókið frumvarp. Það er það nefnilega. Það er tæknilega mjög flókið að lesa sig í gegnum það og átta sig nákvæmlega á því hvaða áhrif það kunni að hafa.

Nú ætla ég að ítreka að ég er mjög hlynnt því að til staðar sé þátttökuréttur almennings og að við hvetjum til þess að almenningur hafi skoðun á mikilvægum framkvæmdum. Ég held að það sé mjög, mjög mikilvægt. En ég nefni þetta kannski ekki síst á þeim forsendum að ég hef töluverða reynslu af að vinna að skipulagsmálum. Árið 2008, held ég örugglega, voru innleidd ný skipulagslög þar sem sett var inn aukaferli sem í fólst lýsing á verkefninu áður en farið væri í nýtt deiliskipulag. Gerð var krafa um að það væri þá kynnt almenningi þannig að hann gæti komið að þeim málum fyrr í ferlinu, sem átti að vera mjög jákvætt. Ég hef reynslu af þessu, ég hef setið allmarga slíka fundi, og mér hefur aldrei verið þakkað fyrir að halda fundi fyrr í ferlinu og leyfa fólki að koma fyrr með athugasemdir heldur hefur pirringur verið látinn í ljós: Það eru engin svör hérna, þið eruð bara að segja hvað þið ætluð mögulega eða kannski að fara að gera. Hvernig ætliði að leysa þetta og þetta? Svo reynir maður að útskýra að það sé nú kannski hluti af ferlinu, að svara þessum spurningum, og mín reynsla er alla vega sú að almenningur upplifir þetta ekki sem eitthvert tækifæri fyrir sig til að hafa skoðun á því sem fram fer.

Ég er fyrst og fremst að koma hingað upp til að benda á þetta. Ég hvet hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara þá aðeins yfir það. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson kom aðeins inn á áðan spyr ég: Er þörf á enn frekari breytingum á þessu lagaumhverfi? Ég efast ekki um að við eigum að koma til móts við þær ábendingar sem kunna að vera uppi, um að við höfum ekki innleitt þetta nægilega skýrt, þetta sem kemur fram í áliti ESA. Ég held því að full ástæða sé til að við veltum þessu fyrir okkur.

Þegar farið er í mikilvægar framkvæmdir, sem koma okkur flestum við, þegar verið er að ræða um umhverfismál og fara inn á einhver svæði og raska einhverju er mjög eðlilegt að almenningur geti haft skoðun á því hvað verið er að gera og með hvaða hætti. En ég velti fyrir mér hvort þessi lagarammi sé hreinlega orðinn það flókinn að hann bjóði almenningi ekki upp á að taka þátt og hafa skoðun.

Mín kenning er sú að ferlið sé orðið það flókið að það sé meira og minna orðið svona sérfræðingamál þar sem fjöldi sérfræðinga úti í bæ vinnur við að gera fjölda skýrslna sem svo jafnvel stjórnsýslan og hvað þá almenningur hefur bara ekki fullkomið færi á að setja sig inn í. Ég velti fyrir mér hvort við séum komin með svona kerfi fyrir kerfið, en ekki kerfi fyrir fólkið.

Þetta var nú kannski meira almenn athugasemd og ég geri ráð fyrir að bæði hæstv. ráðherra og hv. umhverfis- og samgöngunefnd velti þessu upp í samhenginu við þetta frumvarp og þá kannski fleiri sem kunna að koma frá hæstv. ráðherra. Þá langaði mig líka að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í þátttökuréttinn: Hvað felst í því, þ.e. er það þá ákvæði um að birta bara viðkomandi upplýsingar á heimasíðu? Þarf auglýsingar til? Þarf að halda opinn fund? Í hverju felst krafan um þátttökuréttinn? Og þá vil ég benda á að ég fæ mjög gjarnan ábendingar af þessu tagi: Jú, kannski er búið að vinna fullt af hlutum og setja inn á heimasíðu eða auglýsa en hvar er raunveruleg aðkoma fólksins að málinu?

Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það hvernig við sjáum það fyrir okkur í framkvæmd.

Mig langar að lokum að benda á það sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins að úrskurðarnefndin tekur orðið í dag um níu mánuði til að úrskurða í svona málum. Það er að meðaltali. Ég hef séð úrskurði sem eru töluvert eldri en það. Það hlýtur að segja okkur að eitthvað þurfi að gera. Kann að vera það sem hér er nefnt, að bæta við mannafla hjá úrskurðarnefnd til að hún geti unnið hraðar, eða að við þurfum með einhverjum hætti að einfalda kerfið okkar.

Að þessu sögðu þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þetta og óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í að fara yfir þetta frumvarp.