148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[14:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra ágæta innlegg í umræðuna. Ég vil byrja á því að taka fram að ráðuneytið lét vinna utanaðkomandi lögfræðiálit við undirbúning þessarar lagasetningar og var það hluti af því að gera þetta sem skilmerkilegast og að ábendingum ESA yrði fylgt eftir.

Aðeins varðandi þær athugasemdir sem hér komu fram og vísað var til Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins gerðu athugasemd við 3. gr. frumvarpsins sem hefur með breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda að gera. Þau töldu að hægt væri að gera þessar breytingar með einfaldari hætti. Því er til svara þar að hér er verið að leggja til breytingu á lögunum hvað varðar athafnir og athafnaleysi í tengslum við þátttökurétt almennings því að kærurétt vegna ákvarðana er þegar að finna í lögunum. Þess vegna var það mat ráðuneytisins að með tilliti til sjónarmiða um skýrleika kæruheimilda væri nákvæmlega tiltekið í frumvarpinu hvaða tilvik væru kæranleg. Tillaga Samtaka atvinnulífsins fæli þá frekar í sér að ákvæðið væri opnara. Í því tilfelli er því verið að tilgreina sérstaklega athafnir og athafnaleysi, sem er einmitt kjarninn í því sem að Eftirlitsstofnun EFTA bendir á að vanti.

Varðandi athugasemdir Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga við 4. gr. frumvarpsins, sem er breyting á lögum um úrskurðarnefndina, og nú verð ég að taka undir að þetta er oft og tíðum flókið, þá eru í fyrsta lagi þrenn lög þar undir og er margt í því sem maður fellur um. Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga telja þessa breytingu óþarfa á lögum um úrskurðarnefnd. Ráðuneytið telur í því tilfelli að breytingin í 4. gr., sem hér er um að ræða, sem fjallar um málsmeðferð og kæruaðild, sé nauðsynleg þannig að getið sé samskonar málsmeðferðar og kæruaðildar fyrir möguleg brot á þátttökurétti almennings. Þannig er verið að gera lög um úrskurðarnefnd skýrari með tilliti til þess að það eigi ekki aðeins við um ákvarðanir heldur líka um mögulegt brot á þátttökurétti almennings.

Ég átti nýlega fund með úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem ég ræddi sérstaklega við þau um þann málahala sem er hjá úrskurðarnefndinni. Ríkisstjórnin og Alþingi samþykkti tillögu í fjárlögunum að auka umtalsvert fjárframlög til nefndarinnar. Ég hef aldrei áður komið á stofnun sem er bara nokkuð sátt við þær tillögur sem sést hafa í fjárlögum, en það var mjög ánægjulegt að upplifa það. Nefndin telur að takast muni að vinna á þessum málahala á þessu ári og því næsta. Ég mun samt sem áður fylgjast mjög grannt með því hvernig það gengur því að það er allra hagur að málsmeðferðartíminn styttist. Hann verður að styttast og um það erum við öll hjartanlega sammála.

Ég vil nefna það varðandi almenna umræðu um mögulegar tafir og annað slíkt að við erum fyrst og fremst að tala um mjög stórar framkvæmdir, þetta eru framkvæmdir sem heyra undir mat á umhverfisáhrifum og framkvæmdir sem fara í mat á umhverfisáhrifum.

Ég hef ekki eins þungar áhyggjur af þessu og fram kom hjá nokkrum hv. þingmönnum vegna þess að með þessari breytingu er verið að gera athafnir og athafnaleysi kæranleg á atriðum sem stjórnvöld, Skipulagsstofnun, sveitarfélög og aðrir leyfisveitendur og í einhverjum tilfellum framkvæmdaraðilar, eiga hvort eð er að standa skil á, eins og að kynna tillögu að matsáætlun eða kynna og auglýsa álit Skipulagsstofnunar og þar fram eftir götunum. Þannig ég hef ekki eins þungar áhyggjur af þessu eins og hér hefur komið fram, og reynist vonandi ástæða til.

Á sama hátt gæti þetta líka virkað þannig að þessir sömu aðilar fái með þessu meira aðhald á störf sín vegna þess að yfir þeim hangir það mögulega að þarna gætu orðið kærumál. Við vitum að þau flýta ekki fyrir framkvæmdum.

Þá ætla ég að koma aðeins meira inn á það sem hér var rætt, um heildarmyndina og hvort að þetta kerfi okkar sé orðið of flókið. Í fyrsta lagi tel ég algjörlega nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun á lögunum um mat á umhverfisáhrifum. Í því sambandi ætti að skoða bæði lögin um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og lögin um mat á umhverfisáhrifum áætlana og skoða þau í sameiningu og líta til þess hvernig þetta er gert erlendis og í kringum okkur. En það er eitt af því sem ég mun setja í gang núna á vordögum, að hefja heildarendurskoðun laganna.

Ég vil sérstaklega gera að umfjöllunarefni þátttökuréttinn og hvort að þátttakan geti ekki orðið fyrr í ferlinu. Ég tek hjartanlega undir með þeim hv. þingmönnum sem komið hafa inn á það hér að það er grundvallaratriði að við reynum með öllum hætti að búa til þannig kerfi að almenningur sjái sér hag í að taka þátt fyrr í ferlinu því að þá getur almenningur miklu frekar haft áhrif á ákvarðanirnar en seinna í ferlinu. Með því móti erum við líka draga úr líkunum á því að kærumál verði síðast í ferlinu. Svo eru náttúrlega alltaf einhverjar framkvæmdir sem eru mjög umdeildar og þar sem erfiðara er að forðast þetta yfir höfuð.

Ég tek undir nauðsyn þess að fara í heildarendurskoðun á lögunum og nauðsyn þess að almenningur geti komið að málum fyrr í ferlinu. Er það líka í algjöru samræmi við ákvæði Árósasamningsins sem Ísland er aðili að. Aðeins til að svara spurningu um hvað átt sé við með þátttökuréttinum þá er þar í rauninni verið að setja skilgreiningu inn í lögin um mat á umhverfisáhrifum um hvað hann þýðir, það er í rauninni engin breyting á því hvernig hann hefur verið framkvæmdur hingað til. Verið er að hnykkja á þessu.

Ég vil þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir mjög góðar umræður um þetta mál og óska umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í því að vinna áfram með málið.