148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það fer ekki hjá því að í öllum þeim málafjölda sem lagður er fyrir Alþingi á hverjum tíma komi fram mál sem maður skilur alls ekki. Ég viðurkenni það hér og nú að þetta mál skil ég ekki, bara engan veginn. Við lestur greinargerðarinnar vakna gríðarlega margar spurningar og ég ætla að reyna að tæpa á örfáum mjög snöggt.

Ég sé ekki betur en að ef þessum kröfum verður aflétt getum við tekið okkur far með leigubíl sem er rekinn af gjaldþrota manni sem á ekki bílinn sem hann er að keyra, hefur hlotið dóm fyrir fjársvik og getur ekki borið farangur vegna fötlunar. Nú er ég talsmaður þess að þeir sem eru með skerta starfsgetu hafi aðgang að störfum eftir því sem þeim er kleift. En ég spyr mig: Hvernig í ósköpunum víkur þessu við, þegar slakað er á öllum þessum skilyrðum, hvernig horfir þetta við þeim sem nýtur þessarar þjónustu? Svo rek ég mig á eitt sem mér finnst allsendis furðulegt. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafa tekjur í þessari grein aukist rosalega mikið frá 2011. Ég spyr mig: Ef þetta væri nú eins í rekstri húsgagnaverslana, ætluðum við þá að fara að gjaldfella skilyrði þess að opna húsgagnaverslun? Af því að við sjáum að það er eftir peningum að slægjast? Ég bara skil ekki þetta mál, ég næ ekki hvert menn eru að fara.

Síðan er eitt í viðbót. Talað er um að auka eigi möguleika neytenda á að velja milli ólíkra þjónustustiga á mismunandi verði og auðvelda stærri hópum að nýta almenningssamgöngur. Bíddu, hvernig hangir það saman við það að fjölga leigubílum að gera mönnum betur kleift að nota almenningssamgöngur? Ég viðurkenni það aftur, ég er bara ekki greindari en þetta, ég bara skil ekki þetta mál.