148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:21]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla ekkert að hætta mér út í neinar hugleiðingar um af hverju hv. þingmaður skilur ekki það sem hann ekki skilur. Ég held það geti bara verið að hann hafi mögulega ekki lesið tillöguna nægilega vel eða vilji kannski fá ítarlegri skýringar á einhverju eða jafnvel bara umræður í nefnd, sem er nákvæmlega það sem til er ætlast með þessu máli.

Þar sem þetta voru ansi mörg atriði sem hv. þingmaður drap á ætla ég fyrst að byrja á þessu með fjársvikin, gjaldþrotið og fötlunina. Það ríkir atvinnufrelsi hér á landi. Ekkert af þeim atriðum sem tiltekin eru hér eru til þess fallin ein og sér að gera alla þá sem undir það falla ótæka til að keyra leigubíl. Við höfum hins vegar rætt það að full ástæða sé til að einstaklingur sem ítrekað hefur gerst sekur um brot á umferðarlögum sé alla vega undanskilinn því að fá leyfi til að aka leigubíl. Enn fremur einhver sem hefur gerst sekur um kynferðisglæpi.

En ég verð að viðurkenna að ég stend næstum því jafn skilningsvana og hv. þingmaður yfir upptalningu hans á einkennum eða fortíð einstaklinga sem eiga að gera þá óhæfa til að aka leigubíl. Ég vildi gjarnan fá nánari skýringu á því hvernig þetta tengist.