148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Ég get sagt að það er alveg klárt eins og kom fram í upphafi máls míns að verið er að skoða þessi mál og hluti af því sem lagt er til hér mun verða að veruleika ef og þegar starfshópur skilar sínum tillögum og málinu vindur áfram. Ég geng út frá því að það muni hafa áhrif á stóran hluta þess fjölda sem nýtir sér skutlarahópinn í dag. Ég tel jafnframt að það sé af hinu góða. Þetta er þá komið í einhvern farveg og það verður einhver möguleiki, ágætismöguleiki, á eftirliti. Það er þá fólk með leyfi sem hefur gengist undir einhvers konar kvaðir og eftirlit verður á margan hátt einfaldara.

Hvað varðar verðlagningu sé ég það líka fyrir mér. Þegar framboð leigubílstjóra og leigubíla verður orðið fjölbreytt liggur í hlutarins eðli að það gefur möguleika á að vera með mismunandi verðlagningu, allt frá því hvernig þjónustan er borin fram yfir í það hvort um er að ræða svokallaða safnbíla sem margir þekkja erlendis frá og eiga erindi eitthvert og vilja ekki vera einir í bíl og safna saman í hópinn, lengja ferðina eilítið en borga töluvert minni pening fyrir. Fjölbreytileikinn er þannig mjög líklegur til þess til að hafa áhrif í þá átt að verðlagningin verði að sama skapi fjölbreytt.