148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu og langar að ræða þetta umdeilda mál. Fyrst vil ég segja að ég skil það mætavel að þetta sé umdeilt mál. Ég skil mætavel að það veki sterkar tilfinningar. Það er mjög eðlilegt að fólk upplifi sterkar tilfinningar þegar verið er að ræða mjög miklar breytingar á starfsumhverfi sem fólk hefur kannski varið miklum tíma og jafnvel fjármunum í. Ég skil það mætavel.

Það hins vegar breytir ekki stöðunni. Það breytir ekki ýmsum staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir núna. Umræðan um þetta mál líkist alveg ofboðslega mikið umræðunni um höfundarétt, sem við Píratar höfum tekið mikinn þátt í í gegnum tíðina og reyndar er gjörvallur tilvistargrundvöllur flokksins byggður á andstöðu við tregðu rétthafa til þess að líta aðeins inn í nútímann og framtíðina og hætta að reyna að halda í heim sem var og verður aldrei aftur.

Við erum ekki alveg komin þangað þegar kemur að þessari starfsgrein, leigubílaakstri. Það gerist vissulega hægt en það gerist þó og er að gerast og mun gerast hraðar í framtíðinni. Það er staðreynd, það er ekki neitt sem við á hinu háa Alþingi ákveðum og það er ekkert sem við getum gert til þess að stöðva það. Það er bara þannig, tækniframþróunin verður hvort sem okkur líkar betur eða verr og hún er algjörlega miskunnarlaus gagnvart þeim viðskiptamódelum sem við teljum okkur stóla á eða höfum stólað á áratugum saman. Henni er bara slétt sama.

Að því sögðu finnst mér mikilvægt að við slíkar breytingar reynum við að taka tillit til þeirra hagsmuna sem fyrir eru og reynum að mýkja lendinguna því að hún getur orðið mjög hörð ef ekki er vel að hlutunum staðið, vissulega. Mér er ekki algjörlega ljóst nákvæmlega hvernig eigi að gera það og auðvitað fylgja öllum breytingum ákveðnir vaxtarverkir fyrir ýmsa aðila og þeir eru ekkert endilega léttvægir, þeir geta verið mjög óþægilegir, vondir. En það breytir ekki stöðunni.

Oft er í þessu samhengi talað um Uber og Lyft og skutlarahóp á Facebook og eitthvað svoleiðis. Ég vil vekja athygli á því að þetta eru bara þrjú tiltekin dæmi sem við þekkjum, en öll eiga þau það sameiginlegt að þau nýta nútímatæknina í sínum iðnaði. Uber gerir það á sinn hátt, ekki mikið hérlendis, ef ég skil rétt, hið sama gildir um Lyft þótt þessi fyrirtæki séu stór og mikil erlendis með ýmsum afleiðingum. En fyrirferðamestir í umræðunni, alla vega hér á landi af sögn leigubílstjóra sjálfra sem ég hef talað við, eru skutlarahópar á Facebook — hvort það eru fleiri en einn þekki ég hreinlega ekki. Ég nota þá ekki, ég nota bara leigubíla og er mjög sáttur við þá almennt.

Ég vil vekja athygli á því að þar er sambærilegt vandamál og þegar kemur að framfylgni höfundaréttar af gamla skólanum. Við munum ekki að loka einhverjum Facebook-grúppum hérna og við munum heldur ekki gera annan hvern mann í landinu að lögreglumanni til að fylgjast með því. Svo lengi sem fólk hefur óheft frelsi til tjáskipta verður þessi starfsemi ekki bara möguleg, hún verður mjög auðveld — mjög, mjög auðveld. Hún verður aldrei stöðvuð, aldrei nokkurn tímann, nema annaðhvort með því að við gerum þetta að lögregluríki, sem ég legg til að enginn stuðli að, eða hreinlega að við gefumst upp. Ég legg til þriðja kostinn sem er að heimila þetta, að losa um reglurnar, hætta þessum fjöldatakmörkunum til að byrja með, í það minnsta að losa verulega um þær. Ég fer aðeins meira út í fjöldatakmarkanir á eftir, en jú, við eigum að hætta þeim. Ég átta mig algjörlega á að það hljómar hræðilega fyrir leigubílstjóra í dag.

Ef krafa okkar til þessa skutlarahóps eða -hópa er sú að þeir starfi af gegnsæi, þeir skili sköttum, þeir fari eftir lögum og að hægt sé að ná í þá ef eitthvað kemur upp á. Ef við viljum að þeir starfi í löglegu umhverfi verður starfsemin að vera lögleg. Ef hún er ólögleg verður ekkert gegnsæi og þegar er ekkert gegnsæi, þá verða litlir sem engir skattar — ég stórefast um að nokkrir skattar séu greiddir þarna, ég hef ekki rannsakað það og þori ekki að fullyrða það, en það kæmi mér á óvart vegna þess að þetta fólk starfar í umhverfi sem heimilar því ekki að starfa. Það er ólöglegt, það er ekki með leyfi þannig að hvernig á að skila sköttum í starfsemi sem það hefur ekki leyfi til að taka þátt í?

Þetta er vandamálið sem ég legg til að allir séu sammála um að þurfi að leysa. Það heyrast mjög oft umkvartanir vegna þessa og ég tek undir þær, þetta er raunverulegt vandamál og við eigum að leysa það. En það felst ekki í því að að hafna tækniframförunum. Facebook er ekki að fara neitt — eða ég ætla að taka það til baka, Facebook fer einhvern tímann en tæknin fer ekki neitt, samskiptatæknin fer ekki neitt og möguleikar fólks til þess að hópast saman í einhverjum grúppum til þess að sinna sínum sameiginlegu hagsmunum fer heldur ekki neitt.

Það fyrirkomulag sem við erum með núna getur vel verið að hafi verið mjög rökrétt fyrir tveimur, þremur áratugum síðan, það má vel vera, jafnvel einum, ég skal ekki segja. Í dag stendur það í vegi fyrir framþróun á borð við þá að hinn almenni borgari geti sinnt þessari þjónustu löglega, gegnsætt, borgað sína skatta, borið ábyrgð á því ef eitthvað kemur upp á, sem er öryggisþátturinn sem við viljum væntanlega öll leysa. Það snýst ekkert um Uber eða Lyft eða þennan tiltekna Facebook-hóp. Það snýst um tæknina sjálfa. Ég segi það þó aftur að ég er mjög ánægður með leigubílaþjónustuna, alla vega í Reykjavík, og nota hana frekar mikið ef út í það er farið, og aðrar lausnir, eins og strætó, sem ég mæli líka hiklaust með.

Oft er talað eins og einungis núverandi fyrirkomulag geti tryggt eitthvert ákveðið þjónustustig, eitthvert ákveðið öryggi. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég trúi því ekki alveg. Leigubílstjórar á Íslandi eru almennt strangheiðarlegir, fara rétta leið og eru ekkert að reyna neitt sem maður vildi ekki að þeir reyni. Við búum í mjög góðu samfélagi hvað það varðar, almennt mjög heiðarlegu samfélagi. Maður þarf almennt séð ekki að hafa áhyggjur af því að fólk steli hlutunum af manni á kaffihúsi og maður þarf almennt ekki að hafa áhyggjur af því, ef nokkurn tímann, að leigubílstjóri sé að snuða mann. En til eru lönd þar sem það er tilfellið. Ég æta að nefna eitt land, sem er Tékkland þar sem ég var tiltölulega nýleg. Þar gerði ég þau mistök að taka tékkneskan leigubíl sem vildi að sjálfsögðu fá miklu hærra verð fyrir aksturinn en gat staðist, bílstjórinn fór kolranga leið og allt það. Það er dæmigert í sumum samfélögum, því miður, þar sem samfélagssáttmálinn er ekki alveg á sama plani og hér. Þar taka allir Uber og allir sem ég talaði við sögðu: Ekki láta þér detta í hug að taka tékkneskan leigubíl, taktu Uber. Vegna hvers? Jú, vegna þess að þú veist verðið fyrir fram, þá er ekki hægt að snuða þig, það er ekki hægt að svíkja þig og þú getur ekki svikið bílstjórann. Þú veist hvert hann fer, það er allt á hreinu, það er allt gegnsætt, það er allt öruggt og það er allt þægilegt og það er fyrir neytandann.

Munurinn er auðvitað ekki svona skýr hérna því að við erum svo heppin að búa við alveg strangheiðarlega leigubílstjóra og góða þjónustu almennt þannig að við sjáum ekki þennan mun. En það er ekki lagaumhverfi okkar sem gerir það að verkum, þessar tæknileiðir eins og Uber eða Lyft eða Facebook-hópur, eða hvað svo sem kemur næst, geta gert það líka og jafnvel betur. Þótt það sé ekki endilega sérstök þörf á því á Íslandi, þá getur þessi tækni það víst.

Tækniframfarir í leigubílaakstri á Íslandi hafa ekki verið svakalega miklar. Þær hafa verið einhverjar, en þær eru mjög sambærilegar við þær sem við berum hér meira eða minna öll á okkur, sem er snjallsíminn. Við erum með GPS, hægt er að panta á netinu og fleira. En hlutir eins og að sjá hvar bílinn er staddur þegar maður hringir í leigubíl og sjá hvar hann er á korti og að hann geti séð hvar maður sjálfur ert á korti, að maður geti borgað fyrir fram með misjöfnum leiðum, svo sem með reiðufé, debetkorti, kreditkorti eða PayPal eða hverju sem er, hvaða máli skiptir það, bara með ýmsum leiðum, öllum leiðum sem hægt er í dag. Það hefur ekki verið framþróun í því efni á íslenskum leigubílamarkaði, það er í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu, það er bara enginn hvati til þess. Það er vegna þess að það markaðsumhverfi, sem við erum með hér, og ég átta mig fyllilega á því að fullt af fólki hefur lifibrauð sitt af því í dag, er ekki í umhverfi virkrar samkeppni þar sem tækniframþróun hefur tilhneigingu til þess að koma fram og víkja öðrum úr vegi. Það bara er ekki þannig. Með fjöldatakmörkunum og stöðvaskyldunni og sérstaklega samþykktum gjaldmælum, það er bara ein leið sem má borga leigubíl með. Það hindrar framþróun. Í gegnum hindrunarsamkeppni. Það tel ég vera staðreynd, alveg sama þótt að það sé ekki heppileg staðreynd fyrir fólk sem vill halda í kerfið eins og það er.

En enn og aftur, ég get ekki ítrekað það nógu oft að ég skil mætavel áhyggjur leigubílstjóra og ber fulla virðingu fyrir þeim. En alveg eins og ég segi við vini mína í tónlistarbransanum og hugbúnaðargeiranum sem hafa óbeit á Pírötum fyrir að ætla, að þeirra sögn, að rífa höfundarétt í tætlur: Við verðum að horfast í augu við tæknina. Þeir munu lifa af sem gera það. Við verðum að nýta hana, taka á móti henni, faðma hana og endurselja hana. Það eru aðilarnir sem munu lifa af og til þess þurfum við að breyta þessu kerfi. Það verður ekki endilega sársaukalaust en við verðum að gera það. Ég ætla leyfa hv. 10. þingmanni Suðurkjördæmis að fara yfir í sjálfkeyrandi bíla, en það er alveg heill kafli út af fyrir sig.