148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Mig langar til að spyrja hann aðeins nokkurra spurninga. Ein snýr að hópnum skutlurum. Veit hv. þingmaður hversu margir skutlarar eru skráðir á Íslandi í dag, t.d. hjá skattyfirvöldum? Nú spyr gamall innheimtumaður ríkissjóðs. Talað er um að þetta sé angi af deilihagkerfinu, sem er 21. aldar hugtak yfir skattsniðgöngu. Við höfum tvö dæmi mjög nærtæk á þessu svæði um deilihagkerfi. Eitt er Airbnb. Það eru 3.000 slíkar einingar á höfuðborgarsvæðinu óskráðar og borga ekki neitt, eru ekki tryggðar, borga ekki neitt til samfélagsins fyrir þá þjónustu sem þar er veitt og seld. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann: Veit hann hversu margir skutlarar eru skráðir hjá skattyfirvöldum? Veit hv. þingmaður hvernig tryggingamálum þeirra er háttað? Eru þeir með kaskótryggingu sem tekur til tjóns á farþegum o.s.frv. sem þeir flytja?

Síðan er eitt í viðbót. Það hefur verið sagt að þetta sé eitt af því sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi, að semja fyrir fram um verð. Ég verð að spyrja hv. þingmann einnar persónulegrar spurningar. Hann getur valið hvort hann svarar eða ekki. Er það þannig þegar hv. þingmaður fer til hárskera, semur hann um prísinn fyrir fram? Ég myndi alveg vera til í að fara í Krónuna og segja við kaupmanninn: Eigum við að semja fyrir fram um verðið á ribeye-inu sem ég ætla að grilla í kvöld?

Hvert ætlum við að fara með þessu? Ætlum við að taka upp allsherjar prúttmarkað? Ætlum við að vera bara eins og á marokkóskum teppamarkaði, með mikilli virðingu fyrir þeim? Ætlum við að færa þessa starfsemi þangað?