148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar því að mér finnst mikilvægt að svara þeim. Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi hversu margir skutlarar séu skráðir hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Ég hef ekki hugmynd um það. Reyndar er ég með eina hugmynd, ég held að fjöldinn sé núll. Ég hugsa að það sé enginn. Það kæmi mér ekkert á óvart. Það kæmi mér á óvart ef þeir væru fleiri en núll ef ég á að segja alveg eins og er.

Hv. þingmaður spyr hvernig tryggingamálum hjá þeim sé háttað, hvort þeir séu kaskótryggðir. Aftur: Ég hef engar heimildir. Það er ekkert gagnsæi í þessu, ekki neitt. Ég bara veit ekkert um það. Ég get giskað. Sennilega núll. Kæmi mér á óvart ef þeir væru fleiri.

Og það er vandinn. Iðnaður sem er ekki hægt að fá leyfi fyrir og heldur samt áfram undir þeim formerkjum sem hann er stundaður, svo sem skutlarahópur eða Uber eða eitthvað, er alltaf ógagnsær. Hann skilar almennt ekki sköttum ef þá nokkurn tímann. Ef við ætlum að hafa hlutina uppi á borðum, hafa þá þannig að við getum skikkað bílstjóra til að vera með tryggingar og borga sína skatta og vera skráðir hjá innheimtumanni ríkissjóðs, ef ég skildi hv. þingmann rétt, verður starfsemin að vera lögleg. Þess vegna verðum við að uppfæra regluverkið í takt við nýja tíma.

Ef við breytum regluverkinu ekki neitt spyr ég hv. þingmann á móti: Hvað telur hann að muni breytast? Ég held að ekkert muni breytast. Ég held að það verði áfram sirka núll skráðir og sirka núll tryggðir. En kannski er hv. þingmaður með einhverjar upplýsingar um þetta. Mér þætti það mjög verðugt innlegg í umræðuna.

Hv. þingmaður spyr síðan um að semja fyrir fram um verð. Ég legg reyndar ekki í vana minn að semja fyrir fram um verð við leigubílstjóra. Stundum skil ég eftir smáafgang ef ég nenni ekki að skipta og er með reiðufé. En í fyrsta lagi, ef ég myndi gera það, þá sé ég ekki í fljótu bragði hvað væri athugavert við að það gerðist af og til. Í öðru lagi er það ekki það sem ég er að tala um heldur að maður geti jafnvel borgað fyrir fram þannig að leigubílstjórinn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann fái ekki borgað fyrir farið. Það eru þannig vandamál sem tæknin getur hjálpað okkur að leysa. En ég fatta ekki alveg hvert hv. þingmaður er að fara með það að semja fyrir fram um verð eins og það sé einhver ægilegur skandall. Af hverju má það ekki (Forseti hringir.) ef menn vilja það? Ég geri það ekki, sé enga ástæðu til þess, en hvað er slæmt við það?