148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, eins langt og hún hefur náð. Margt áhugavert hefur komið fram. Ég ætla að vísu að byrja á að segja að þetta er vitaskuld umdeild tillaga, enda má túlka hana þannig að hún vegi að starfsöryggi leigubílstjóra en aðrir myndu líta á hana sem neytendavernd og atvinnufrelsismál. Það er kannski rétt að segja að ég er alveg hrikalega ánægður með að sjá hversu margir eru uppi á pöllunum. Það sýnir hvað þetta mál er mikilvægt fyrir marga. Ég vildi bara gjarnan að oftar væri fólk á pöllunum hjá okkur því að þetta er samtal sem við eigum líka að eiga við samfélagið.

En þó svo að ég sé meðflutningsmaður á þessu máli lít ég svo á að farsælasta niðurstaðan í því sé að fram komi frá ráðherra tillaga sem eykur frjálslyndi á þessum mikilvæga markaði. Þar tek ég undir allt sem kom fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar hér áðan. Það eru augljóslega ákveðnar breytingar sem hafa verið að eiga sér stað í samfélaginu sem munu halda áfram að eiga sér stað. Í því ljósi myndi ég segja að þessi tillaga sé ekki til höfuðs leigubílstjórum heldur frekar til höfuðs skutlurum. Það þarf að koma böndum á þann svarta markað eða gráa eða hvað hann skal kallast. Eina leiðin sem hefur virkað til þess í gegnum tíðina að koma böndum á svarta markaði, sem eru til fyrir tilstilli nýrrar tækni, er að breyta regluverkinu þannig að allir geti fallið undir það og allir hafi möguleika á að taka þátt á grundvelli þeirrar nýju tækni.

Um leið ætti í tillögunni, sem kemur frá ráðherra að lokum, að laga ýmislegt sem gerir rekstur leigubifreiða kostnaðarsamari en þörf er á og bæta þar með starfsaðstæður leigubílstjóra í leiðinni. Þá eru ákveðin atriði upp á framtíðina sem við þurfum að skoða.

En ég ætlaði upprunalega að byrja á því að ræða aðeins um þessa tillögu í samhengi við tvö hagfræðileg hugtök, gerviskort, sem ég hef skrifað mikið um í fortíðinni, en líka allra-tap sem er gríðarlega vandmeðfarið hugtak. En ég ætla held ég að bíða með það. Ég sé að ekki er þörf á þeim hagfræðilegu hugmyndum inn í þessa umræðu á þessum tímapunkti. Það er miklu meiri þörf á að skoða þetta í samhengi við þá tækni sem fer að koma til sögunnar.

Kannski er rétt að ég taki líka fram að þó svo að ég tali oft um leigubíla í því sem á eftir kemur er það eingöngu vegna þess að hér erum við að tala um mál sem snýr að leigubílum. Lýsingin á þessu ástandi á jafn vel við annars staðar í hagkerfinu þar sem lög og reglur hafa skapað ákveðinn gerviskort og þar sem tækniframfarir grafa undan þeim kerfum sem fyrir voru. Ég ætla að gera það sem ég get til að draga ekki sjálfan mig út í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið því að fullt tilefni er til að ræða það í þessu sama samhengi.

En nú er það svo að á undanförnum árum hefur spjótum gervigreindarinnar heldur verið beint að störfum leigubílstjóra. Það eru tugir fyrirtækja sem eru í þessum töluðu orðum að reyna að finna upp nýjar leiðir til að gera alla leigubílstjóra heims atvinnulausa. Og ekki bara alla leigubílstjóra heldur alla atvinnubílstjóra heims. Þess má vænta að ekki séu nema örfá ár þar til algerlega sjálfkeyrandi leigubílar koma fram. Það mun að vísu ekki verða svo gott að þeir þrífi sig sjálfir eða geti veitt þjónustu á sama stigi og leigubílstjórar gera í dag en samt mun þetta verða. Núverandi regluverk kemur kannski, jafnvel líklega, í veg fyrir að mögulegt sé að bjóða upp á slíkar sjálfrennireiðar á leigubílamarkaði á Íslandi í dag en sú umræða mun eiga sér stað. Þegar hún verður mun hún koma af tiltölulega miklu afli.

Við þurfum að átta okkur á að þessi bylting er að ganga í garð, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er full ástæða til að reyna að vinna skipulega að því að búa okkur undir þá framtíð. Og eins og alltaf hefur gerst með allar tækniframfarir hafa svartsýnustu spár um verstu hugsanlegu niðurstöður verið kolrangar. Líklega er sjálfvirknivæðing leigubíla ekki að fara að losa okkur við alla leigubílstjóra, ekki frekar en tilvist bifreiðar losaði okkur við alla hesta. En þeim kemur líklega til með að snarfækka.

Við þurfum að reyna að vinna skipulega og rólega að þessu. Einhverjir kunna að líta svo á að þessari tillögu fylgi illur hugur gagnvart leigubílstjórum, að vegið sé að starfsöryggi þeirra. En ég vil segja eins skýrt og ég get að engin slík illindi búa að baki stuðningi mínum við þetta mál. Ég trúi því ekki upp á nokkurn þeirra flutningsmanna sem eru á þessu. Þvert á móti lít ég svo á að þetta sé mikilvægt skref í áttina að því að milda höggið á starfsstéttina og samfélagið allt þegar vélmennin taka yfir. Því að þau koma til með að gera það.

Við þurfum almennt að vera meðvitaðri um hvað það þýðir að sjálfvirknivæðing leiði af sér stórfellt atvinnuleysi. Eitt sinn unnu hestar mörg störf í samfélaginu en þegar bifreiðar voru fundnar upp sagði enginn: Hafið engar áhyggjur, ný störf munu alltaf vera til fyrir hesta. Því að það er algerlega fráleitt að halda slíku fram. En þegar fólk segir: Hafið engar áhyggjur, ný störf munu alltaf verða til fyrir mannfólk, finnst öllum það fullkomlega sjálfsagður málflutningur. Ég skil það ekki.

Tvennt er augljóst á þessum tímapunkti: Möguleikum sjálfvirknivæðingar eru fáar takmarkanir settar og hún kemur til með að eiga sér stað. Því langar mig til að vitna til ágæts bréfs sem grindaprjónarar í Nottingham skrifuðu til sölumanna prjónavara í þeirri borg árið 1811 þar sem segir, með leyfi forseta, í minni þýðingu:

Í ljósi hins mikla uppgangs krafna til lífsins hefur maður sem hefur fullt starf með öllum sínum dugnaði og kona með allri sinni umhyggju og hagræði ómögulega getað borið uppi fjölskyldu þannig að þægindin verði nokkuð. Ef það er tilfellið og ef svo er, hve hrikalegt hlýtur ástandið að vera hjá þeim sem hafa aðeins takmarkað starf á lágum launum og enn verra: Hvert er ástand þeirra sem hafa enga vinnu, sem er jú tilfellið hjá ótrúlega mörgum á þessum tíma?

Bréfið heldur áfram og frekari samskipti verða. Nú er ég að tapa tíma svo að ég ætla ekki að fara í gegnum það allt. En eftir samskipti þessara hópa er að lokum lagt til að ef sjálfvirkar prjónavélar verði að koma fram, sem þær gerðu, eigi þær að vera undir stjórn fagmanna á því sviði. Svo varð ekki. Þetta endaði á því að auðvitað varð þetta vinnutæki láglaunavinnuafls sem var í eigu fólks sem stórgræddi á því. Þetta lítur á margan hátt út á sama hátt og það sem er að gerast með Uber í heiminum í dag. Sjálfvirknivæðingin þjónar hagsmunum tiltölulega fárra.

Vandamálið árið 1811 og vandamálin árið 2018 eru þau sömu. Atvinnuöryggi manna er ógnað vegna annars jákvæðra breytinga, breytinga sem allir í samfélaginu ættu að geta notið góðs af.

Ég legg til að við gerum þveröfugt við það sem við gerðum þá. Við ættum að tryggja þeim sem starfa í þessari stétt það öryggi sem mögulegt er, búa okkur undir framtíðina, en umfram allt skulum við reyna að tryggja að framþróun samfélagsins, sem kemur til með að verða, verði sem flestum sem best. Að því marki hafa Píratar lagt til ýmsar tillögur sem reyna að miða að því að minnka aðstöðumun fólks en það er svo sem efni í fjölmargar ræður um borgaralaun og ýmislegt fleira.

En þetta er ekkert minna en iðnbylting sem við erum að horfa upp á. Þetta er jafnvel töluvert stærra. Mér þykir afskaplega leiðinlegt að sumar starfsstéttir lenda í þessum breytingum hraðar en aðrar. Auðvitað eigum við sem þing að gera það sem við getum til að stoppa neikvæð áhrif sem verða vegna ótryggðra aðila sem eru í skutlarahópnum og borga enga skatta og geta fyrir vikið tekið lægra gjald fyrir verri þjónustu. En nálgumst þetta með ákveðnum skilningi á því hvað framtíðin ber í skauti sér. Því að ef við gerum ekkert er aukin hætta á að sjálfvirknivæðingin leiði af sér ýktustu (Forseti hringir.) neikvæðu niðurstöðu þessarar tillögu, hvort sem við hér samþykkjum þetta eða ekki. Það er betra að við gerum þetta núna en að lenda í þessu seinna meir.