148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við erum nú búin að hlusta á margar lærðar ræður um framtíðina og pælingar í þeim efnum. Merkilegt auðvitað að verða vitni að því eina ferðina enn að menn eru farnir að boða málefnalega umræðu um eitthvað, sem eru reyndar mjög róttækar tillögur, sem þeir eru sjálfir meðflutningsmenn að. En svo þegar koma heimsóknir hér á svalirnar eru menn farnir að hlaupa í allar áttir og reyna að milda þetta eitthvað, það eigi að vera samráð o.s.frv.

Það er margt til í því sem sagt hefur verið að við horfum fram á miklar breytingar. Þannig mun fjórða iðnbyltingin sennilega hafa meiri samfélagsleg áhrif en jafnvel þær fyrri og jafnvel þótt þær væru lagðar til samans. Það gefur augaleið og það vitum við öll að fjölmörg þeirra starfa sem við störfum við í dag í mismunandi þjóðfélagshópum munu verða allt önnur þegar kemur að því hjá börnunum okkar og barnabörnum að velja sér framtíðarstörf.

Það er kannski mergurinn málsins. Það verður ekki umflúið á þessum vettvangi frekar en öðrum að horfa til þeirra tæknibreytinga sem eru að verða í samfélaginu og sjá hvernig við getum aðlagað breytingar í þessu starfsumhverfi í samræmi við þær, alveg eins og við hljótum að horfa til þess á svo víðum vettvangi í svo mörgu öðru.

Það var einmitt á þeim grunni sem ég sem þáverandi samgönguráðherra setti í gang þá vinnu sem nú er í gangi. Ég taldi tilhlýðilegt, eins og heppilegt er í allri svona umræðu, að skipa hóp með þeim hætti að sem flest sjónarmið ættu aðild að þeim umræðuvettvangi, þar á meðal með þátttöku forsvarsmanna úr leigubílastéttinni, leigubifreiðastjórastéttinni, og þátttöku annarra sem vildu kannski ganga hratt og örugglega til verks. Einhverjir hafa viljað gera það jafnvel án þess að undirbúa jarðveginn vel. Það er nú grunnurinn í þessu sem öðru að taka þarf upplýstar og vel ígrundaðar ákvarðanir þegar svona breytingar eru innleiddar. Það þarf m.a. að taka tillit til þeirra sem hafa haft þessi starfsréttindi árum saman, eiga kannski ekki hægt með að snúa sér að öðrum störfum, hafa verið að fjárfesta jafnvel nýlega í atvinnutækifærum sínum og í sinni sjálfstæðu atvinnustarfsemi, auk þess sem þarf að taka tillit til sjónarmiða neytenda og þeirra breytinga sem eru að verða í samfélaginu, hvernig við getum innleitt sem best þessa þjónustu.

Mér fannst sú umræða, virðulegur forseti, sem hér fór fram að frumkvæði hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson í síðustu viku vera tímabær. Mér fannst sú umræða vera fyllilega tímabær og einmitt til þess fallin að krefja ráðherra málaflokksins svara um stöðu þessara mála, um hvernig vinnu vindi fram og hvenær væri að vænta einhverra tillagna á grundvelli hennar.

Að sama skapi finnst mér framlagning þessa þingmáls vera — ég ætla ekki að segja eitthvert vinsældarupphlaup, en algjörlega ótímabær. Vegna þess að ég tel að þær tillögur sem þar koma fram og eru nokkuð róttækar — við höfum heyrt hv. þingmenn sem eru meðflutningsmenn á málinu vera að hlaupa svolítið frá þeim og boða samráð og vinnu — þurfi að skoða allar miklu betur. En það er nákvæmlega það sem er í gangi. Það er nákvæmlega sú vinna sem er í gangi. Því var umræðan mjög þörf og eðlileg. Þannig eigum við að vinna í þinginu. En tillagan aftur á móti er algerlega ótímabær.

Það er kannski allt of mikið um slíkt í þessu umhverfi á hinu háa Alþingi, virðulegur forseti, að menn eru að reyna að slá sig til riddara í ýmsum málum. Ég ætla ekki að undanskilja sjálfan mig í því. Ég hef alveg tekið þátt í því einhvern tímann á þeim 11 árum sem ég hef setið á þingi. En þetta er hluti af því sem við höfum verið að tala um í reyna að efla virðingu þingsins, það er að vinna hlutina með markvissari hætti.

En ég fagna umræðunni. Ég bíð spenntur eftir því sem kemur út úr þeirri vinnu. Ég treysti því að þingið í samvinnu við hæstv. ráðherra á þeim tíma muni taka þessi mál til umfjöllunar og gera það af fullri tillitssemi við alla þá sem hlut eiga að máli, hvort sem þeir hafa fjárfest í þessum geira, skapað sér starfsgrundvöll jafnvel til áratuga, fjölskyldur sem eiga allt undir því að slíku sé ekki raskað á einu augabragði, á sama tíma og horft sé til viðhorfa neytenda, viðhorfa nýrrar tækni sem óumflýjanlega mun lita allt okkar samfélag á næstu árum og áratugum. Og þau störf sem við þekkjum svo vel í dag munu mörg hver, og við sem erum aðeins eldri höfum horft til, verða nánast horfin af sjónarsviðinu. Það mun verða jafnvel enn róttækara á næstu árum.