148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta talar allt fyrir sig sjálft. (Gripið fram í: Nei.) Hv. þingmaður boðar í umræðu um þessi mál þessa nálgun á málin en er samt meðflutningsmaður á tillögu sem komin er fram án þess að vinna hafi farið fram, án þess að þetta mál hafi verið greint. Án þess að forsendurnar liggi fyrir úr þessari vinnu er hv. þingmaður meðflutningsmaður á tillögu sem er í eðli sínu mjög róttæk, alla vega gagnvart þeim hópi sem starfar við þetta í dag og finnur sér ógnað. Án þess að sjónarmiða leigubílstjóra sé gætt, án þess að málið hafi fengið að ljúka sínu ferli á þessu sviði, þá talaði hann hér í allt aðra átt en tillagan sjálf segir til um. Það er nákvæmlega það sem ég átti við. Menn tala hér í kross.