148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ekki að þessi uppgjafartónn myndi heyrast í orðum hv. þingmanns ef hann væri yfir höfuð að reyna að leysa vandamálið sem við stöndum frammi fyrir.

Já, ég er meðflutningsmaður á þessu máli vegna þess að ég tel augljóst að þessa leið verðum við að fara. Það er ekki mótsögn milli þess og að reyna að mýkja lendinguna fyrir þá sem verða fyrir þeim breytingum, það er engin mótsögn þar. Ef hv. þingmaður hefur raunverulegan áhuga á því að reyna að leysa þetta vandamál þannig að það komi sem flestum sem minnst illa, þá væri hann ekki að reyna að gera öðrum það upp að vera að flýja málið. Það var nú aðallega það sem ég vildi koma á framfæri.

En svo ítreka ég líka að ég var ekki að spyrja hv. þingmann að neinu, ég var að benda honum á að það var rangt sem hann sagði að þingmenn væru að flýja málið. Þetta er bara í samræmi við þá skoðun sem við höfum tjáð hér áður. Já, við erum meðflutningsmenn á þessu máli vegna þess að við erum sammála málinu og viljum mýkja lendinguna fyrir leigubílstjóra. Það er engin mótsögn í því.

Og aftur: Ég er ekkert að spyrja, ég er að benda á þetta.