148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allir séu sammála um að þetta er róttæk tillaga. Það er ekki hægt að skýra það öðruvísi en þannig, opna á fyrir algjört frelsi inn á þennan markað. Það gerir það að verkum að þeir sem lifa af leigubílaakstri í dag sjá náttúrlega ógn við það að tekjur þeirra gætu lækkað um helming á örskömmum tíma. Það hlýtur að vera róttæk tillaga. Ég held ég þurfi ekkert að skýra það frekar.

Varðandi þau dæmi sem ég tók frá Svíþjóð þá sýna þau hvaða afleiðingar það getur haft að hver sem er geti farið inn í þessa grein. Það hefur sýnt sig að í Svíþjóð var ekkert eftirlit haft með því hverjir fóru inn í greinina. Það eru því miður misindismenn víða og þeir komast greinilega mjög auðveldlega (Forseti hringir.) inn í þessa starfsgrein. Þannig að við verðum einnig að horfa til þessara dæma og reynslu annarra þjóða.