148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú búið að snúa hlutum hér svolítið á haus, þar sem sá sem á að vera fyrir svörum er sá sem er farinn að spyrja. Það er bara hið besta mál. Ég kem hingað upp til þess að gera athugasemdir eða tala um nákvæmlega þau mál sem hv. þingmaður tiltók.

Í fyrsta lagi hvort það sé vöntun að mínu mati á leigubílstjórum. Ég get ekkert fullyrt um það hvort það sé alla daga vöntun á nákvæmlega þeirri leigubílaþjónustu sem við bjóðum í dag, en eins og ég taldi mig hafa tekið skýrt fram í ræðu minni þá hef ég áhuga á að opna þetta þannig að það verði aukin fjölbreytni í þeirri þjónustu og hún geti síðan leitt af sér ákveðið nýtt jafnvægi af framboði og eftirspurn eftir þessari tegund af almenningssamgöngum.

Ég verð nú að segja að þau líflegu viðskipti sem eiga sér stað í þessari Facebook-grúppu skutlara sem ég fer stundum inn á, bara til að átta mig á samskiptunum þar, benda til þess að það sé ekki bara framboð eins og hv. þingmaður kom inn á áðan af einhverjum einstaklingum sem vilja ná sér í aukapening með því að bjóða þessa þjónustu sína þar, heldur líka af einstaklingum sem vilja nýta sér þá þjónustu.(Forseti hringir.)

Síðan þetta með stöðvarnar. Það er einfaldlega einn af þeim hlutum sem hafa komið fram mjög skýrt að starfshópurinn er að skoða (Forseti hringir.) vegna þess að því verður breytt. Það er eðli málsins samkvæmt, þess vegna erum við að tala annars vegar um þessa tillögu og hins vegar um þann starfshóp sem kom upp í samtölum (Forseti hringir.) í síðustu viku, þetta er farið að renna saman. Það virðist nokkuð óumdeilt að þar verður þetta gert að tillögu og okkur mun verða gert að breyta fyrirkomulaginu vegna þess (Forseti hringir.) að það brýtur í bága við reglugerðir Evrópska efnahagssvæðisins.