148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi að leigubifreiðarstjórar væru lögvernduð starfsstétt og þess vegna væri eðlilegt að takmarka aðgengi inn í þá stétt. Af því að mér finnst þetta snúast svolítið mikið um atvinnufrelsi langar mig að spyrja hv. þingmann. Lögmaður er lögverndað starfsheiti. Lögmenn reka lögmannsstofur og veita mjög mikilvæga þjónustu. Væri með sömu rökum ekki hægt að segja að það væri skynsamlegt að takmarka aðgang að því að menn geti opnað lögmannsstofur eða að sjúkraþjálfarar geti opnað stofur eða tannlæknar tannlæknastofur? Hvaða sérstöku rök eru fyrir því að takmarka aðgang manna sem hafa ökuréttindi og eru fullfærir (Forseti hringir.) um að aka farþegum? Af hverju þarf að takmarka aðgang í þessa stétt af öllum? Ég átta mig ekki á því. Getur hv. þingmaður útskýrt það aðeins fyrir mér?