148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég nefndi nú lögmenn og fleiri. Ég skal nefna aðrar starfsstéttir. Ég skal nefna hárgreiðslumeistara, ég skal nefna snyrtifræðinga. Allt eru þetta stéttir þar sem mikið er af einyrkjum. Menn hafa lært til þessarar iðnar. Það hefur engum dottið í hug svo ég viti til að takmarka aðgang þessa ágæta fólks til þess að hefja eigin rekstur. Þannig ég er ekki enn þá búinn að fá rök fyrir því að eitthvað sérstakt gildi um þessa stétt.

Þetta minnir mig svolítið á gamla gildishugsjón og -hugsun, að stöðvarnar og menn þétti hópinn og haldi utan um sitt fólk. Þetta minnir mig á gildi iðnaðarmanna í gamla daga sem við erum löngu horfin frá. Ég sé satt að segja engin rök fyrir því að þessi starfsstétt, sem er vissulega mikilvæg, eigi að njóta þessarar sérstöku verndar. Þar að auki er ekkert sem kemur í veg fyrir að leigubílstjórar sem vilja hafa stöðvar hafi stöðvar og bjóði upp á þjónustu sem fullnægir öllum þeim skilyrðum (Forseti hringir.) sem um er rætt. Þeir eru þá miklu betri leigubílstjórar samkvæmt því sem hér hefur verið sagt, (Forseti hringir.) og öruggari en hinir. Þá hafa þeir markaðsforskot (Forseti hringir.) og allir fara með Steindóri.

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)