148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hér hefur verið lögð áhersla á að við ættum að taka á móti framtíðinni með opnum örmum. Eins og við séum ekki að því hér venjulega. Ég held að málið snúist nú frekar um að stýra því hvernig við gerum það. Vera með báða fæturna á jörðinni.

Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd. Við fjölluðum þar á 146. þingi um mjög stórt mál sem voru farþegar og farmflutningar. Þá komu fulltrúar þeirra sem hér eru á pöllum og margir fleiri og það urðu gríðarlegar umræður um farþegaflutninga á Íslandi. Það hefur sennilega mótað mitt álit dálítið að vera í nefndinni á þeim tíma.

Ég vil byrja á að minna fólk á að þetta snýst ekki um neitt deilihagkerfi. Deilihagkerfi er allt annað en við erum að ræða um hér. Deilihagkerfi er t.d. þegar menn sameinast um bíla eða skiptast á bílum eða einhverju slíku. Það sem hér um ræðir í stórum dráttum, því hér eru yfirleitt alltaf einhver bakfyrirtæki ef við getum orðað það svo, er verktakavinna. Það er einkabíll sem er gerður að leigubíl. Það er verktaki sem sér um aksturinn. Þetta á ekkert skylt við deilihagkerfi.

Við tölum gjarnan um ábyrga fólksflutninga, hvort sem er í lofti, landi eða á sjó. Maður getur spurt sjálfan sig: Hvar liggja mörkin ef maður vill beita þessari aðferð, að leyfa einkaaðilum, leyfislausum o.s.frv., að stunda einhvers konar flutninga? Við köllum það viðskiptafrelsi. Ég tek sem dæmi átta til tólf manna rútur, leigubílstjórar eru margir hverjir með slíka bíla, kannski ekki tólf manna en átta manna. Eigum við að strekkja þetta yfir í litlar rútur sem keyra með ferðamenn? Því ekki það? Hér hafa verið nefndir skemmtibátar, skutl milli lands og eyja. Hvar eru mörkin? Eru það bara leigubílar?

Ég held að þegar menn ætla sér að spegla þessa hefðbundnu markaðsstarfsemi yfir á fólksflutninga sé allt annað uppi. Þessar einföldu, ég segi næstum því klisjur, gilda ekki. Ástæðan er auðvitað þessi ef við horfum á samgöngur: Hvar er mest hættan í samgöngum á Íslandi? Hvar verða flest slysin? Jafnvel dauðaslys? Jú, það er auðvitað í umferðinni. Það er ekki vegna þess að hún sé í sjálfu sér óskaplega flókin, það er ekki eins flókið að stýra bíl og að fljúga flugvél, heldur er það bara fjöldinn. Það er fjöldi atburða, ef við getum orðað það þannig, á hverjum degi sem stýrir þessu fyrst og fremst. Þess vegna tölum við um ábyrga fólksflutninga. Það er auðvitað kjarninn í þessu öllu. Ekki framtíðin heldur ábyrgir fólksflutningar.

Við spyrjum spurninga eins og um öryggi farþega, skyndihjálp, um tryggingar, raunverulegar tryggingar en ekki bara kaskótryggingar á bíl heldur tryggingar farþeganna sem þarna eru og allt sem því fylgir. Við spyrjum líka um kunnáttu ökumannanna við stýrið. Hvað með aldurstakmörk? Þurfa þeir einhver sérpróf? Þurfa þeir meirapróf?

Þegar við erum komin svo langt að ræða þetta í alvöru vitum við að ef þetta verður gefið frjálst eins og hér um ræðir verða það fyrirtæki eins og Uber og Lyft og fleiri sem munu annast lungann af þessum flutningum. Og hverjar eru kröfur þessara fyrirtækja, t.d. til ökumanna? Ég hef rætt við ökumenn, notað Uber í París, líka notað leigubíla í París. Ég er það þokkalegur í frönsku að ég get rætt við leigubílstjórana. Það eru engar kröfur. Snyrtilegur klæðnaður. Hreint sakarvottorð.

Það er líka spursmál um kjör og réttindi þessa fólks. Hver eru réttindi verktaka sem taka að sér svona akstur? Eða kjörin? Ég fletti að gamni upp á vefsíðu með dæmum, ég held frá Chicago, alla vega var það í Bandaríkjunum. Það var tekið dæmi um meðalferð sem tók 30 mínútur. Uber rukkar þar 17 dollara. Það fara 1,65 í eitthvað sem heitir farþegagjald, svo koma 25% og þá stöndum við eftir með nokkurn veginn 11 dollara. Svo voru reiknaðir 2 dollarar í eldsneyti og ýmsan kostnað því það er jú auðvitað ökumaðurinn sem borgar. Þá stóð hann eftir með 9 dollara. Það er rétt um það bil helmingurinn sem fellur til ökumannsins.

Við spyrjum líka um kröfur til bílsins sjálfs. Hann er auðvitað skoðaður eins og bílar eru en eru einhverjar sérstakar aðrar kröfur gerðar til hans? Má hann vera stór eða lítill? Og við spyrjum síðan um tryggingar eins og ég nefndi áðan. Hvernig sem við veltum og snúum þessu vekur þetta upp spurningar um hvort við ætlum að setja mjög stífar reglur og kröfur um svona farþegaflutninga utan atvinnuvega, eða hvernig við orðum það. Ef svo er, förum við svo nærri atvinnubílstjórunum að þeir verða óþarfir eða öfugt? Er óþarfi, ef við gerum allar þessar kröfur, að reikna yfir höfuð með að þetta fólk stundi þennan akstur á þennan hátt?

Það er misjöfn reynsla af þessum fyrirtækjum. Menn hafa tekið einhver dæmi frá Svíþjóð. Ég þekki það ekki en ég veit t.d. að í borginni Brno í fyrrum Tékkóslóvakíu var þetta einfaldlega bannað. Ég hef ekki kynnt mér rökin. Það var reynt að hverfa til fyrra ástands í Prag en það hefur ekki tekist enn. Ég hefði áhuga á að vita hvort menn hafi kynnt sér hvað sé þar á ferðinni.

Aðalatriðið er þetta: Við erum að horfa til framtíðar og tökum vissulega á móti henni. Tækniþróunin sem hér um ræðir, hvort það heitir snjallsími eða eitthvað annað, stýrir ekki þróuninni. Það erum við sem stýrum þróuninni sjálf með ákvörðunum hér á þingi eða annars staðar. Það er það sem þetta snýst um. Við erum ekki vélrænir þrælar tækninnar. Öll elskum við tæknina. Við vitum það sjálf.

Þegar kemur að frelsinu benti ég á það í sérstöku umræðunum að það er fylgst með fólki á Uber. Þú veist hvað farþeginn heitir, veist hvar hann á heima náttúrlega, veist hvert hann fer og hvenær. Það er nú ekki mjög í anda þess frelsis sem við erum oft að tala um. Ég er þar ekki að tala um atvinnufrelsi, bara frelsi og persónuvernd. Það er ekki víst að þetta sé æskilegt. Jú, þá hafa menn annan möguleika, þeir geta tekið venjulegan leigubíl en engu að síður eru þetta hlutir sem verða að vera með í umræðunni um þessi mál.

Síðan það sem mér þótti undarlegast, þegar verið var að tengja þetta við almenningssamgöngur. Almenningssamgöngur snúast ekki um að ég geti ekið í einhvers konar leigubíl fyrir 4.000 kr. í staðinn fyrir 5.000 einhverja leið. Almenningssamgöngur snúast auðvitað um skipulagðar samgöngur fyrir lítinn pening, 500 kr. eða 1.000 kr. sömu leið. Það er fullkomlega út í hött að ræða þetta í sömu andrá og almenningssamgöngur. Það er allt önnur Ella að mínu mati.

Við erum einfaldlega ósammála um hvort farþegaflutningar eigi að vera atvinnuvegur út í gegn, það sé atvinnuhópur eða stétt sem þetta stundar og að meginatriðið sé ákveðin fagleg færni sem snýst um öryggi, aðstoð við farþega, hvað við viljum, oft við mjög erfiðar aðstæður. Ég sæi óreynda ökumenn fyrir mér, sem er engin trygging fyrir að hafi neina reynslu, aka fólki við erfiðar aðstæður, jafnvel út á land. Við þekkjum það að leigubílstjórar aka fjöldanum öllum af túristum út á land, jafnvel á veturna. Ég get ekki séð ábyrgðina í því að líta svo á að þetta sé bara frjálst. Í raun og veru finnst mér mjög langt seilst þegar rætt er um farþegaflutninga og öryggismál út frá markaðslögmálum eða markaðshugmyndum eins og ég nefndi í sérstöku umræðunum, eins og menn séu að ræða um sælgætissölu. Þetta er miklu stærra og flóknara mál en svo.

Ég get vel séð að það sé þörf á umbótum eða úrbótum í leigubílaakstri á Íslandi, svo sannarlega. Einu sinni voru hér fleiri leigubílastöðvar. Ég man ekki hvort það var einhver samkeppni í verði, kannski var það. Ég gæti alveg séð fleiri leigubílastöðvar hér. Það er líka hægt að hugsa sér fleiri flokka bíla, þrjá flokka eftir verði t.d. Það er líka hægt að nota alls konar tækniframfarir, hægt að kalla á leigubíl með einhverju appi í símanum. Við erum ekki endilega að horfa til 30 ára núna, við erum að horfa til þriggja ára eða (Forseti hringir.) eitthvað slíkt. Það getur vel verið að það verði mannlausir leigubílar einhvers staðar en þessi tegund er ekkert endilega nauðsynlegt millistig.

Við fjöllum að sjálfsögðu um þetta mál (Forseti hringir.) í hæstv. umhverfis- og samgöngunefnd af miklum heilindum og vöndum til verka.