148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi lokaorð hv. þingmanns ber ekki að skilja það svo að ég sé að hvetja til þess að ófaglærðir fljúgi flugvélum heldur hef ég einfaldlega frelsi til þess að stofna og reka flugfélag. En auðvitað fá til þess þar til bært fólk til að sinna samgönguþættinum sjálfum. Og það á víðar við.

Mér er líka fullkomlega heimilt að stofna hópferðafyrirtæki og flytja farþega þvers og kruss um landið, en ég get vissulega mætt ákveðnum samkeppnisskilyrðum þegar kemur t.d. að sérleyfisútgáfu. En mér er algerlega frjálst að reka mitt eigið hópferðafyrirtæki þar sem ég markaðsset mig gagnvart ferðamönnum hér á landi.

Enn og aftur þarf ég hins vegar auðvitað að vera með atvinnubílstjóra í vinnu hjá mér við að sinna akstrinum. Það gefur augaleið. Auðvitað þarf ég að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til atvinnustarfseminnar. Ég tel mjög mikilvægt að greina þarna á milli. Ef við erum að opna á samkeppni í leigubílaakstri erum við ekki að draga með neinum hætti úr þeim faglegu kröfum sem við gerum til viðkomandi bílstjóra. Að sjálfsögðu þurfa þeir að uppfylla nákvæmlega þær sömu kröfur og við gerum til atvinnubílstjóra í leigubílaakstri í dag. Mér dytti aldrei í hug að fara að búa til einhvers konar tvískiptan markað þar sem yrði hinn frjálsi markaður og svo núverandi leigubílamarkaður. Hvort sem það heitir Uber eða einstaklingur sem kýs að reka sinn eigin leigubíl eða einstaklingur sem starfar á stöð. Auðvitað eiga þeir að uppfylla sömu hæfniskröfur til að geta sinnt því starfi.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að greina á milli. Og ég skil enn og aftur ekki af hverju hv. þingmaður telur að við getum ekki mætt öryggissjónarmiðunum, hæfisskilyrðunum, og öðrum þeim kvöðum sem við viljum leggja á atvinnugreinina án þess að takmarka fjölda þeirra sem í henni starfa. Það er bara með nákvæmlega sama hætti og með fjöldann allan af mjög viðkvæmum atvinnugreinum, oft og tíðum, (Forseti hringir.) við veitum frelsi til að stofna til starfseminnar en gerum auðvitað miklar kröfur til þeirra sem starfa í henni út frá eðli og efni hverju sinni.