148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú flækjast tilsvörin. Hv. þingmaður segir sem svo að hann geti stofnað rútufyrirtæki en þurfi að sjálfsögðu að hafa atvinnubílstjóra til að keyra rútuna. Það er það sem við viljum í fyrsta lagi varðandi leigubíla. En síðan er það svo að fyrir takmarkað landsvæði, segjum Reykjavík, höfum við haft þann háttinn á að gefin eru út tiltekin leyfi því að þetta eru atvinnubílstjórar. Það er þannig með frelsisbílstjórana, Uberbílstjórana, að þeir eru ekki atvinnubílstjórar og eru ekki að þessu í fullri atvinnu. Þetta eru hjáverk í öllum tilvikum. Ég get ekki séð að við eigum að gera sömu hæfniskröfur til þess fólks eins og venjulegra leigubílstjóra því hvers vegna erum við þá yfir höfuð að ræða þessi mál? Þá erum við bara að búa til leigubílstjóra. Þeir geta þá verið jafn margir og þörfin er fyrir.

Það er alveg kristaltært að kröfur sem hafa verið gerðar til þess háttar bílstjóra sem við ræðum hér í öðrum löndum eru fjarri því að vera nokkuð líkar þeim kröfum sem við gerum til leigubílstjóra. Það eru engar kröfur gerðar til Uber- eða Lyftbílstjóra aðrar en þær hefðbundnu, að menn hafi bílpróf, séu snyrtilega klæddir, bíllinn þokkalegur. Svo fá menn einkunn fyrir hverja ökuferð. Það er alveg rétt. Ef þeir gerast sekir um eitthvað fá þeir tiltal. En það eru engar aðrar kröfur gerðar til þess fólks. Að koma hingað upp og segja núna að við ætlum að gera mjög strangar kröfur til þessa fólks, það er eitthvað alveg nýtt fyrir mér.