148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka áhugavert innlegg hv. þingmanns sem fór út um víðan völl. Ég ætla í andsvari mínu að höggva í sama knérunn og kollegi minn, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, og vera á þeim nótum sem hv. þingmaður lauk máli sínu á.

Ef ég skil hv. þingmann rétt telur hann að með þessari tillögu sé verið að leggja til að kröfur um nám og próf og tryggingar séu látnar víkja. Ef hann taldi einsýnt að það yrði niðurstaðan, ef ég hef skilið hann rétt, langar mig bara að segja að það er þá eitthvað nýtt. Þá misskil ég sjálfa mig líka því að það er ekki það sem þingsályktunartillagan kveður á um. Eitt af því sem við segjum þar er að það skuli fækka kvöðum. Til eru lög um leigubifreiðar og reglugerðir. Það sem tiltekið er í greinargerð sem dæmi um það sem mætti fækka eru bara ekki þessi atriði. Það er einfaldlega ekki verið að tala um að gera minni kröfur um menntun eða gera minni kröfur um tryggingar og sleppa prófinu. Við getum alveg gert það. Það væri þá bara áhugavert. Ég sit í sömu nefnd og hv. þingmaður, í umhverfis- og samgöngunefnd. Vilji menn það, af því að honum finnist fráleitt að aðrir en þeir leigubílstjórar sem fyrir eru uppfylli þessar kröfur, þá tökum við þá umræðu. Ég er bara ekki þar.

Mér þætti áhugavert að heyra frá hv. þingmanni af hverju það er orðinn útgangspunkturinn og hann telji fráleitt annað en að þessum kvöðum verði aflétt, því að þar erum við bara ósammála.

Svo langar mig líka að segja að mat hv. þingmanns á því að leigubílstjórar séu ekki almenningssamgöngur og það sé fráleitt að ræða um þær á þessum nótum vil ég benda honum á að leigubílaakstur er skilgreindur sem almenningssamgöngur í reglugerð. Við erum ekki beinlínis á sama vegi í þessari umræðu.

En mig langar að biðja hv. þingmann að svara því af hverju hann velur að ræða þetta mál á þessum nótum. Er það til þess að drepa (Forseti hringir.) málum á dreif? Eða hvað er það?