148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:13]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mér hefur þótt mjög áhugavert að hlusta á umræðuna um þetta mál hér í þingsal. Mér finnst hún í grundvallaratriðum vera mjög kunnugleg. Í stuttu máli má segja að hún snúist með hefðbundnum hætti um frelsi andspænis forræðishyggju. Við erum tala um einfaldlega frjálst samkeppnisumhverfi í leigubílaþjónustu eins og við treystum á á flestum öðrum sviðum atvinnurekstrar í okkar samfélagi í dag og teljum raunar nauðsynlegt til þess að reyna að tryggja hvort heldur sem er best gæði eða sem best verð. Auðvitað getur þetta verið mismunandi. Við getum sóst eftir lakari vöru á lægra verði eða betri vöru á hærra verði, það er okkar val sem neytendur. Það er samkeppninnar að finna síðan út úr því hvernig eftirspurnin eftir þessu er.

Alltaf virðist umræðan verða sú sama þegar talað er um að opna eða slaka á samkeppnishindrunum á einstökum mörkuðum. Samkeppnin er ágæt, en hún á bara ekki við hér. Samkeppni á ekki við í landbúnaðarvörum, það er alveg ómögulegt, þar skilar hún ekki þeim árangri að tryggja neytendum sem hagkvæmast verð. Samkeppni virðist ekki eiga við í leigubílaakstri, þar er hún alveg kolómöguleg. Markaðnum sé alls kyns hætta búin ef gengið er svo langt að opna á frjálsa samkeppni á honum.

Fleiri markaði má nefna, en almennt má segja að blessunarlega hefur okkur tekist í gegnum árin og áratugina að losa hægt og rólega upp á þessum samkeppnishömlum og hindrunum sem við höfum verið með og nálgast það að vera með viðskiptafrelsi sem einhvern útgangspunkt.

Ég verð reyndar að viðurkenna það að ég sakna þess pínulítið að hér er ágætur flokkur í ríkisstjórn sem stærir sig gjarnan af frelsi en ekki er að finna einn einasta meðflutningsmann úr honum á þessu ágæta þingmáli. En blessunarlega hafa í það minnsta tveir þingmenn sett sig á mælendaskrá í umræðum um málið. Ég hlakka til þess að heyra ræður þeirra því að mér fannst alla vega í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar gæta ákveðinna efasemda um kosti frelsisins á þessum markaði þótt hann hafi vissulega verið frelsissinnaðri en margir aðrir sem hér hafa tekið til máls.

Ég held að sé ágætt að byrja á einu. Gerum greinarmun á samkeppnishömlum, samkeppnishindrunum, þar sem við sem löggjafi ætlum að reyna að stýra einhverju heildarframboði á markaði, t.d. með takmörkunum á leyfisfjölda, og síðan þeim gæðakröfum sem við gerum til þjónustunnar sem veitt er. Löggjafinn hefur alltaf fullt umboð og vald til þess að setja atvinnugreinum það regluverk sem hann vill að þær starfi eftir. Þetta gerum við við flestar okkar atvinnugreinar. Við setjum þeim reglur. Við setjum þær kröfur sem við viljum gera til þeirra sem starfa í þeim, til þeirra sem stofna fyrirtækin.

Mér fannst athyglisvert að hlusta á hv. þm. Þorstein Sæmundsson og í raun og veru viðhorf hans til atvinnurekstrar, því að almennt má segja: Mér eru afskaplega litlar hömlur settar af hálfu ríkisins, blessunarlega að mínu viti, til þess að stofna til atvinnurekstrar, enda tryggjum við atvinnufrelsi í 75. gr. stjórnarskrárinnar nema að því leyti að við áskiljum okkur rétt til að takmarka það ef almannaheill varðar. Þá getum við spurt: Náum við markmiðum okkar með því að setja mönnum reglur um það hvernig þeir eigi að starfa í viðkomandi atvinnugrein út frá ríkum almannahagsmunum eða þurfum við að takmarka aðgengi að greininni? Það að takmarka aðgengi að greininni býr til skort sem að öðru jöfnu býr til hærra verð en ella.

Mér þykir mjög áhugavert að horfa t.d. á verðþróun á þjónustu þar sem samkeppni ríkir og þar sem samkeppni eru skorður settar. Ég hef rætt það áður í þessum sal hvað það hefur þýtt í landbúnaðarvörum, t.d. í mjólkurvörum sem hafa hækkað umtalsvert meira en önnur matvæli eða neysluvísitala almennt á þeim tíma sem samkeppnistakmarkanir hafa verið í gildi þar. Ef ég man rétt um 44% meira heldur en vísitala neysluverðs á sama tímabili frá árinu 2004.

Þegar við horfum á þjónustu leigubifreiða samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar þá hefur leigubílaþjónusta hækkað um 45% meira frá árinu 2012 en vísitala neysluverðs almennt. Hér gilda samkeppnishindranir. Þær sýnist mér að leiði til hærra verðs en ella á þessum markaði líkt og í flestum öðrum tilfellum þar sem við beitum þeim.

Mér er algjörlega ómögulegt og get ekki verið spámaður til að segja hvað hefði gerst ef samkeppni á þessum markaði hefði verið óhindruð. Ég get ekki sagt til um fjölda leigubifreiða sem væru hér starfandi eða gerðar út í fullu starfi eða hluta eða hvernig sú þjónusta hefði þróast. Það tel ég heldur ekki vera hlutverk ríkisvaldsins, að reyna að segja til um það hvernig atvinnugreinar eigi að þróast. Það er kostur frjálsrar samkeppni að fyrirtæki og einstaklingar hafa tilhneigingu til þess að finna sínar eigin leiðir í þeim efnum til þess að tryggja sem besta afkomu af atvinnustarfsemi sinni. Þar höfum við séð að hugvitssemin getur verið mjög góð og gagnleg og í raun nauðsynleg fyrir framþróun í viðkomandi atvinnugrein. Ég hef líka verið ötull talsmaður þess að frjáls samkeppni stuðli einmitt að heilbrigðari atvinnurekstri heldur en ella.

Hér hefur verið rótað saman alls kyns rökum sem mig langar aðeins velta upp sem snúa að hinum faglega þætti. Hér hefur t.d. verið talað um frelsi fatlaðra til þess að starfa í atvinnugreininni, hvort þeir geti sinnt þjónustu við farþega eða ekki. Það er talað um hvort það eigi að leyfa skattsvikara eða einstakling sem hefur verið dæmdur fyrir lögbrot af einhverju tagi að starfa í þessari atvinnugrein frekar en öðrum. Það er talað um hvort leyfa eigi einstaklingi sem hefur orðið gjaldþrota að reka leigubíl og svo fram eftir götunum. Ýmis rök hafa verið tínd til. Ég segi: Gott og vel. Við skulum þá taka umræðu um það hvaða almennu takmarkanir við viljum setja atvinnufrelsi fólks. Í hvaða atvinnugrein má ég starfa ef ég hef verið dæmdur fyrir afbrot af einhverju tagi? Í hvaða atvinnugrein má ég starfa ef ég hef orðið gjaldþrota? Í hvaða atvinnugrein má ég starfa ef ég er fatlaður? Ætlar löggjafinn að vera að setja mér lög um það? Er það ekki bara mitt mat á endanum hvort ég get sinnt starfinu eða ekki? Ég ætla að vona það alla vega, því ég tel einmitt að atvinnuþátttaka og atvinnufrelsi fatlaðra sé ekki síður mikilvægt heldur en annað.

Þetta er ekki viðfangsefni fjöldatakmörkunar inn í atvinnugrein. Þetta er fyrst og fremst viðfangsefni þeirra faglegu krafna sem við gerum til þeirra sem í henni starfa. Eins og ég nefndi í andsvörum áðan þá eiga þær kröfur að sjálfsögðu að vera hinar sömu til allra sem í slíkri atvinnugrein starfa, ekki bara sumra. Í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er rædd er eingöngu verið að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa í leigubifreiðaakstri og fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna íslenskan leigubílamarkað fyrir aukinni samkeppni. Það er ekki verið að fara að búa til einhvern forréttindahóp í atvinnugreininni sem eigi að starfa eftir einhverjum öðrum leikreglum en þeim sem þegar eru í henni. Að sjálfsögðu eiga allir að starfa eftir sömu leikreglum í þeim efnum.

Þetta er þegar á öllu er á botninn hvolft spurning um hvort við trúum og treystum samkeppni til þess að leiða fram hagkvæmustu niðurstöðu á markaði, hagkvæma þjónustu, góða þjónustu, hún getur líka verið á lágu verði, hún getur verið mismunandi. Hér hefur verið rætt hvort það ættu að vera fleiri valkostir um dýra bíla, miðlungsdýra bíla, ódýra bíla. Allt þetta er yfirleitt leitt fram á frjálsum markaði á grundvelli framboðs og eftirspurnar. Við eigum að treysta þessum markaði eins og öllum öðrum mörkuðum til þess.

Við höfum nefnt hér sambærilegra atvinnustarfsemi af ýmsu tagi þar sem við krefjumst einhverrar hæfni; að reka lyfjaverslanir, að reka bakarí, að reka einhvers konar heilbrigðisþjónustu. Enn og aftur: Mér er frjálst að stofna fyrirtæki sem veitir slíka þjónustu en ég þarf auðvitað að mæta þeim kröfum sem löggjafinn gerir til mín um starfrækslu þeirrar þjónustu. Það á ekkert síður við hér heldur en annars staðar. Við þurfum að gera greinarmun á milli þess að ætla að hefta frelsi einstaklings til þess að stofna til atvinnurekstrar og þess hvaða kröfur við viljum gera til þess atvinnurekstrar.

Ég sé ekkert því að vanbúnaði að opna þennan markað einfaldlega upp. Segja: Það er ekki löggjafans að segja til um hámarksfjölda þeirra leyfa sem við veitum í atvinnugreininni, en það er svo sannarlega löggjafans og þar til bærra stjórnvalda að segja til um þau skilyrði sem við ætlum að setja þeim atvinnurekstri almennt. Þar held ég að við getum fyllilega mætt öllum öryggiskröfum, gæðakröfum og öðrum þeim kröfum sem við viljum gera til leigubílaaksturs, eins og í öllum öðrum atvinnugreinum sem við nálgumst með nákvæmlega sama hætti. Hér er því ekkert að óttast.