148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég missti aðeins af ræðu hv. þingmanns, ég þurfti að bregða mér frá. En ég heyrði hv. þingmann nefna það, ef ég skynjaði rétt, í ákveðnum hneykslunartón ef gjaldþrota einstaklingar og fólk með kannski einhvern sakadóm eða eitthvað því um líkt á bakinu færi að vinna sér inn við leigubílaakstur. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna það er eitthvað slæmt. Ég skil alveg að maður vill ekki að einstaklingar hafi orðið sekir um ákveðin brot þegar þeir vinna að tilteknu starfi, t.d. ekki fólk sem hefur gerst sekt um kynferðisglæpi í vinnu með börnum. Mér finnst alveg sjálfsagt að setja einhverjar kvaðir eftir atvikum.

Hér er ekki lagt til að allt saman verði einhvern veginn afnumið. Í tillögunni stendur, með leyfi forseta, „fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra“ — þ.e. starfsleyfanna — „og opna íslenskan leigubifreiðamarkað fyrir aukinni samkeppni.“ Það snýst ekki um það að allir megi bara gera allt sem þeim sýnist, alveg sama hvað, það er ekki tillagan.

Ég átta mig hreinlega ekki á hvað er athugavert við það að gjaldþrota einstaklingur, sem er jafnvel með einhvern sakadóm á bakinu sem varðar ekki leigubílaakstur eða dregur ekki úr getu hans, hæfni eða trúverðugleika til að sinna því starfi, sinni starfinu. Hvað er að því að einhver geri það, kannski á bíl ömmu sinnar, mömmu sinnar eða maka síns, eða hvað eina? Hvað er að því að viðkomandi eigi mjög lítið í þeim bíl og hafi fengið mest af honum að láni, segjum 90%, hann hafi kannski borgað út 10%. Ég skil ekki vandamálið sem hv. þingmaður nefnir þarna.

Í hálfkæringi langar mig líka að spyrja hv. þingmann hversu margir skutlarar séu skráðir hjá ríkisskattstjóra og hversu margir skutlarar séu tryggðir. Ég ætlast ekki til þess að hv. þingmaður svari því vegna þess að ég held að hann myndi svara því eins og ég gerði áðan, að talan sé í kringum núll eða rétt þar um bil.

Ég spyr um það meira í hálfkæringi, vegna þess að mér fannst skrýtið að spyrja þessara spurninga áðan. En fyrst og fremst langar mig að vita þetta: Hvað er að því að gjaldþrota einstaklingur keyri leigubíl?