148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vorkenni hv. þingmanni að hafa ekki heyrt alla ræðuna mína, hún var fjandi góð, þótt ég segi sjálfur frá.

Þetta snýst ekki um það að sá sem hér stendur hafi horn í síðu þeirra sem hafa lent í því að verða gjaldþrota, langt í frá. Þetta snýst heldur ekki um það að sá sem hér stendur vilji ekki að þeir sem brotið hafa af sér einhvern tímann komist ekki í vinnu aftur. Það snýst ekki um það. Þetta snýst hins vegar um það að í lögum um leigubíla og í reglugerðum þar um er gert ráð fyrir að þeir sem sinna þessari þjónustu séu fjár síns ráðandi og hafi ekki brotið af sér, ég man ekki alveg nákvæmlega orðalagið, um einhvern tíma. Sú er krafan.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni, það er ekkert að því, hv. þingmaður, að slíkt fólk sinni einhverjum störfum. En það er hins vegar ekki æskilegt að mínum dómi að þeir sem koma nýir inn í einhverja atvinnugrein séu ekki settir undir sama mæliker og þeir sem þegar starfa í greininni. Það er það sem ég átti við, hv. þingmaður.

Ég ítreka það að ég lít ekki niður til fólks sem hefur lent í þeirri hörmung að verða gjaldþrota, síður en svo, eða hafa brotið af sér, aldeilis ekki. Ég segi bara: Ef við erum með ákveðna starfsemi í gangi og ætlum að hleypa einhverjum öðrum inn í hana þá gerum við einfaldlega sömu kröfur til þeirra sem inn í atvinnugreinina koma og þeirra sem fyrir voru áður. Það er ekkert að því að vera á bíl ömmu sinnar ef bíllinn er af sömu stærð og gert er ráð fyrir að leigubílar séu, ef hann hefur sömu tryggingar, en það er bara ekkert um það í tillögunni. Það er verið að opna á það að menn komi með minni gæðakröfur inn í þegar gildandi atvinnugrein. Við hljótum að vera sammála um að það er í sjálfu sér ekki það sem við erum að leita að.