148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og að lesa upp fyrir mig tillöguna aftur. Ég vil hins vegar ráðleggja honum í mikilli vinsemd að lesa greinargerðina, vegna þess að þar kemur fram hvaða kvaðir það eru sem er verið að falla frá. Ég nefni sem dæmi, með leyfi forseta. Hér segir:

„Einnig má nefna þörf á að endurskoða kröfur um að leyfishafi sé að meginreglu skráður eigandi bifreiðar eða fyrsti umráðamaður samkvæmt samningi við löggilt kaupleigu- eða rekstrarfyrirtæki, sé fjár síns ráðandi …“

Þarna er verið að segja að við föllum frá því að menn séu fjár síns ráðandi.

Aðeins fyrr í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Krafan um að leyfishafar hafi að meginreglu leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu er óþörf og hamlar mörgum þeim sem kynnu annars að vilja afla sér tekna með leigubifreiðaakstri án þess þó að hafa það að aðalstarfi.“

Talað er hér um námsfólk og fólk með skerta starfsgetu, sem er hvort tveggja hópar sem ég ber mikla virðingu fyrir og vil veg sem mestan. En af hverju eigum við að hleypa þeim í atvinnugrein sem þegar lýtur lögmálum og brjótum lögmálið svo hann komist inn í atvinnugreinina, hv. þingmaður? Það skil ég ekki.

Í prinsippinu finnst mér ágætishugmynd að opna á aukið frelsi í þessu. Við verðum að búa þannig um hnútana að frelsið snúist ekki í andhverfu sína. Við verðum líka að vera vissir um eitt — af því að hv. þingmaður spurði mig í hálfkæringi og ætlaði að gera það um fjölda skutlara skráða hjá ríkisskattstjóra o.s.frv., það er hins vegar spurning sem flutningsmenn hefðu átt að spyrja ríkisskattstjóra um og hafa í greinargerðinni þannig að við vissum um hvað þetta mál snerist. Vegna þess að eins og þetta er núna er þessi tillaga ávísun á veruleg skattsvik, eins og ég sagði áðan.