148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar sem gerir mig ögn hugsi. Hv. þingmaður segir að meginþemað í þessari tillögu sé að sleppa fjöldatakmörkunum. Ég get ekki litið svo á. Hann segir: Hér eru reifaðar ýmsar hugmyndir. Þetta er greinargerð með þingsályktunartillögu sem er lögskýringargagn og menn hlaupa ekkert frá því með því að segja að hér sé verið að reifa einhverjar hugmyndir, vegna þess að hér er beinlínis talað um að verið sé að slaka á kröfum gagnvart þeim sem stunda þessa starfsemi á móti þeim sem áður stunduðu hana.

Ég fór að hugsa þetta aðeins áðan: Stundum erum við að reyna að hafa áhrif á stéttir sem standa frekar veikt, koma inn í þær. Eitt gott dæmi, sem er að því leyti skylt að um er að ræða svipaða atvinnugrein, eru leiðsögumenn sem ekki hafa enn hlotið löggildingu eftir því sem ég best veit. Ég var að leita að því á vefnum og fann ekkert um það. Þá hafa alls konar aðilar verið fengnir í það að leiðsegja um Ísland og vita ekki hvar Baula er þegar þeir keyra upp Norðurárdalinn.

Ég segi: Við eigum ekki að fara inn í einhverjar stéttir sem standa kannski ögn höllum fæti með því að gefa öðrum sem vilja hasla sér þar völl afslátt af þeim kröfum sem hinir hafa starfað við.

Ég fer ekkert ofan af því, hv. þingmaður, að þar sem verið er að aflétta kvöðum er verið að slaka á kröfum til þeirra sem eiga að stunda þessa starfsemi. Það segir mjög skýrt í þessari greinargerð. Menn geta ekkert hlaupið frá því. Menn geta heldur ekkert hlaupið frá því núna og segja að aðalatriðið í þessari þingsályktunartillögu sé aflétting fjöldatakmarkana. Það er einfaldlega ekki rétt. Það er bara verið að slaka verulega á kröfum til þeirra sem eiga að stunda þennan atvinnurekstur. Það finnst mér ekki rétt.