148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er á þeirri skoðun að það sé löngu tímabært að endurskoða lög um leigubíla. Því fagna ég þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í dag í kjölfar framlagningar þessarar þingsályktunartillögu. Ég vil þakka hv. flutningsmönnum, svo og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Ég tel nefnilega að öruggar og greiðar og góðar samgöngur séu eitt af því mikilvægasta sem hið opinbera þarf að tryggja og leigubílaakstur er hluti af því neti.

Í reglugerð um leigubifreiðar segir, með leyfi forseta:

„Leigubifreiðaakstur er þjónustugrein sem telst til almenningssamgangna og felst í að fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra.“

Ég viðurkenni að áhugi minn á breytingum á þessari ágætu löggjöf felst bæði í frelsishugsuninni, en ekki síður í tengslum við sýn mína á skipulag og uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins og mikilvægi öflugra almenningssamgangna. Ég tel að leigubílar eða einhvers konar akstursveitur eigi að vera hluti af því kerfi.

Það er reyndar, herra forseti, víða erlendis þannig að leigubílar eru reknir undir almenningssamgöngukerfi, það þekkist sums staðar þar sem allir leigubílar eru til að mynda á metangasi og þeir eru allir reknir undir einhvers konar opinberu eftirliti sem er í því að stýra þessu þó að allt séu þetta aðilar úti á markaði sem eigi kannski sína bíla og vinni sjálfir þannig.

Það var einmitt á þeim forsendum sem ég hugðist á síðasta kjörtímabili leggja fram skýrslubeiðni til ráðherra samgöngumála um það hvernig ráðuneytið hygðist bregðast við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA. Ég hafði líka hug á því að óska eftir yfirliti yfir stöðu þessara mála í öðrum löndum sem við gjarnan berum okkur saman við og hver reynslan þar væri, t.d. af Uber og Lyft, og þá hvort og hverjar hömlur væru á þeirri atvinnugrein og ef einhverjar hömlur væru á hvaða forsendur þær væru settar fram.

Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag er auðvitað mismunandi reynsla af þessu. Ég held að það sé mikilvægt að þegar við hyggjumst breyta löggjöfinni okkar þá þekkjum við hver reynsla annarra landa sé af þessu og hvernig við getum reynt að sníða af þá agnúa sem þar kunna að vera.

Ég náði því miður ekki að leggja fram mína ágætu skýrslubeiðni, en þáverandi hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Gunnarsson, skipaði starfshóp sem skyldi endurskoða heildarregluverkið um leigubifreiðaakstur. Starfshópurinn átti að leggja fram tillögur til ráðherra um hvort og þá hvaða breytingar væri nauðsynlegt að gera á íslensku regluverki um leigubifreiðaakstur með hliðsjón af áliti ESA gegn Noregi og frumkvæðisathugun á Íslandi.

Fram kom í sérstökum umræðum um frelsi á leigubílamarkaði í síðustu viku, ef ég man rétt, að starfshópurinn hefur verið að störfum frá því í október síðastliðnum og búist er við lokaskýrslu umrædds starfshóps í mars. Hópnum er falið að svara meginspurningunni: Er íslenskt regluverk um leigubifreiðaakstur og framkvæmd þess í samræmi við EES-samninginn? Ef svarið er nei, hvaða breytingar leggur starfshópurinn til að gerðar verði á regluverkinu eða framkvæmd þess til að svo megi verða? Er rétt að gera ráð fyrir þjónustu farveitna á borð við Uber og Lyft hér á landi og hvaða breytingar eru nauðsynlegar í íslenskri löggjöf til að svo megi verða?

Umræddur starfshópur hefur leitað eftir umsögnum fjölda aðila. Í ljósi þess að umræðan í dag hefur snúist dálítið um það að allir þurfi að fá svolítið að koma að þessu máli þá held ég að það sé mjög mikilvægt. Ég geri ráð fyrir að þegar umrædd skýrsla liggur fyrir þá liggi líka fyrir afstaða ólíkra hópa.

Mig langar, með leyfi forseta, að drepa aðeins niður í umsögn sem kom frá Samtökum atvinnulífsins. En þar segir:

„… að það sé óhjákvæmilegt að breyta lagaumhverfi leigubíla sem fyrst með því að afnema aðgangshindranir inn í greinina. Ekki ætti að vera þörf á að uppfylla önnur skilyrði til að aka leigubíl en að vera með gild ökuréttindi, hreint sakavottorð og að fyrirhuguð starfsemi hafi verið skráð hjá skattyfirvöldum. Það myndi lækka verð, greiða fyrir umferð, bæta þjónustu, minnka þörf fyrir bílastæði, auka sveigjanleika, auka öryggi, skila þjóðhagslegum ábata og auka nýsköpun.“

Ég verð að viðurkenna að ég tek alveg heils hugar undir þessa umsögn Samtaka atvinnulífsins.

Þegar ég var að skoða málefni leigubifreiða á síðasta kjörtímabili og fór að lesa reglugerð sem um þau gildir vakti sérstaka athygli mína 9. gr. reglugerðarinnar sem hefur yfirskriftina Eftirlifandi maki og dánarbú, en þar segir, með leyfi forseta:

„Vegagerðinni“ — nú hefur því verið breytt í Samgöngustofu — „er heimilt að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa. Eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona skoðast sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið yfir í að minnsta kosti tvö ár samfleytt samkvæmt þjóðskrá“ — svo var bætt við þessa ágætu reglugerð frá 2002 breytingu árið 2012 — „eða öðrum ótvíræðum gögnum. Heimilt er að leggja að jöfnu yfirlýsingu umsækjanda um sambúðina, staðfesta af tveimur einstaklingum sem lýsa því yfir að þeir séu kunnugir högum umsækjanda.“

Ég velti fyrir mér ef löggjafanum finnst nauðsynlegt, eða framkvæmdarvaldinu, að setja reglugerðir um svona útlistingar, þá held ég að við kunnum kannski að vera farin að ganga aðeins of langt í reglugerðarsetningunni.

Eins og ég sagði áðan fagna ég mjög þessari umræðu. Ég er algjörlega á því að við þurfum að breyta núverandi lagaramma. Ég held við verðum í rauninni tilneydd til þess innan stundar. En ég tek hins vegar undir að mörg sjónarmið eru uppi og að ýmsu þarf að huga. Öryggi er einn stór þáttur þar að lútandi. Fara þarf yfir alla þessa þætti. Það þarf líka að fara yfir þá þætti er lúta að reynslu annarra landa því að þetta er í mínum huga líka hluti af samgöngukerfinu. Það að opna leyfin algjörlega má heldur ekki verða þess valdandi að hér séu bara leigubílar þegar mesta eftirspurnin er, það þarf að tryggja að það sé allan sólarhringinn um allt svæðið og þess háttar.

Ég geri ráð fyrir og treysti því að sá ágæti starfshópur sem hæstv. ráðherra skipaði á síðasta kjörtímabili muni fara vel yfir þetta og við fáum hingað til okkar greinargóðar tillögur um það hvernig rétt er að breyta lögunum og regluverkinu.

Eins og sagt var hér áðan; frelsið er yndislegt, ég er algjörlega sammála því, en frelsinu fylgir líka ábyrgð.