148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mundi gjarnan vilja getað staðið hér í andsvörum við hv. þingmann það sem eftir lifir dags og til miðnættis ef því væri að skipta. Ég sé að við eigum ýmislegt óuppgert hérna.

Mér finnst stundum hv. þm. Brynjar Níelsson vera svolítill kleyfhugi í því hvort hann er íhaldsmaður eða frjálslyndur, en ég held að hann sé meira svona með mótþróastreituröskun. (BN: Mótþróaþrjóskuröskun.) Hann virðist gerast frjálslyndur maður þegar hann ætlar að leggjast gegn íhaldsseminni en íhaldssamur þegar eitthvert frjálslynt mál kemur fram. Og hér virðist hann ætla að stíga í íhaldssama hlutverkið.

Ég get huggað hv. þingmann út af áhyggjum hans af áfengi að við erum að fara að leggja fram að nýju slíkt frumvarp, sameiginlega, ef ég man rétt. Ég held að hv. þingmaður sé með mér á því máli þannig að það er ekki svo að Viðreisnarmenn frekar en aðrir frjálslyndir menn séu móti því að aðrir en ríkið megi selja áfengi, þvert á móti. Við höfum reyndar áður staðið að flutningi á slíku máli ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þar erum við alla vega sammála.

Ég velti því hins vegar fyrir mér þegar kemur að athugasemdum hv. þingmanns, ég veit að hann deilir með mér þeirri hugmyndafræði að neytendur eigi að hafa frelsi til að velja. Ég deili með honum þeirri skoðun að við séum um margt með frábæra leigubílaþjónustu í dag, ég er ekki að kvarta undan því. Við erum með góða leigubílstjóra, hátt þjónustustig. Ég átti raunar áhugavert samtal við leigubílstjóra um daginn sem sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af Uber, einmitt af því að Uber ætti ekki roð í þjónustustig íslenskra leigubíla. Ég held að hann geti alveg haft rétt fyrir sér og það er bara fínt. Það er þá bara frelsi neytenda og neytendur munu velja ýmist Uber eða Hreyfil eða BSR eða einhvern annan. Ég veit alveg að ég mun gera mínar kröfur en ég vil bara fá að velja.

Þess vegna spyr ég: Sér hv. þingmaður eitthvað því að vandbúnaði að neytendur fái að velja? Ég ætla að koma í seinna svari aðeins nánar að öðru í máli hv. þingmanns.