148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Já, mig grunaði að þetta yrði skemmtilegt andsvar. Ég veit það að hv. þm. Brynjar Níelsson. Mótþróaþrjóskuröskun eða ekki, við deilum alveg sömu sýn á að frjáls samkeppni er flestra meina bót. Ég held að það eigi alveg jafn vel við í leigubílaakstri sem öðru. Ég hef eiginlega meiri áhuga á því að heyra skoðanir hv. þingmanns á því sem snýr að efni þessarar þingsályktunartillögu.

Hér er fyrst og fremst verið að beina því til hv. samgönguráðherra að afnema fjöldatakmarkanir og vissulega að kanna leiðir til þess að slaka að einhverju leyti á þeim kröfum sem gerðar eru eða gera þær almennar. Ég get hins vegar ekki með neinum hætti séð að það muni leiða af því sem hér hefur verið rætt að verið sé að fara í manngreinarálit, hvort sem það heitir Uber eða nýir aðilar inn á markaðinn eða þeir sem þegar starfa þar. Ég get ekki lesið það út úr þessari greinargerð.

Ég hygg raunar að það myndi ekki heldur standast jafnræðisreglur og treysti hv. samgönguráðherra fyllilega til þess að koma fram með almennar leikreglur á þessu sviði. Aðalatriðið hlýtur jú á endanum að snúa að því að lyfta samkeppnishindrunum. Ég held að það sé ágætt að hafa í huga þrátt fyrir það sem stendur í greinargerð um ýmsar hugmyndir sem þar eru reifaðar, að ég lít ekki svo á að þar sé komið eitthvert lögskýringargagn. Ef þetta mál fær fram að ganga á þinginu kæmi væntanlega í framhaldinu frumvarp frá hv. samgönguráðherra sem færi nánar út í þau skilyrði sem sett yrðu. Ég treysti því að hv. þingmaður sé sammála mér í því mati. Ég get líka huggað hv. þingmann varðandi áfengisfrumvarpið að allur þingflokkur Viðreisnar er á frumvarpinu þegar það kemur fram að nýju.