148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hv. forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum ekki langt hvor frá öðrum, ég held að við séum bara alveg sammála. Þess vegna sagði ég í ræðu minni áðan að ég hefði getað tekið undir hvert orð þar.

Ég get alveg tekið undir þingsályktunartillöguna, þ.e. orðalag hennar, en vandamálið er að það er miklu meira í henni en það. Öll greinargerðin segir mér bara allt annað og það er það sem ég finn að. Þar blasir við að tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er sá að slaka á kröfunum, hleypa inn hér fyrirtækjum sem starfa allt öðruvísi, veita allt öðruvísi þjónustu, gera minni kröfur o.s.frv. og það er það sem ég er að finna að. (ÞorstV: En samkvæmt sömu reglum.)

Jú, jú en ég er ekki tilbúinn að slaka á kröfunum til þess að fá þessi fyrirtæki inn vegna þess að ég held að þau verði til skaða, fyrir utan það að þau taka allan karakter úr stéttinni. Það má heldur ekki. Þess vegna segi ég að ég er tilbúinn til þess að skoða það að auka samkeppnina. Mér sýnist annars ein stöð orðin allsráðandi, sem ég held að sé heldur ekki hollt. Þannig að ég er tilbúinn að skoða það allt saman. En ég vil ekki samþykkja þessa þingsályktunartillögu með þessari greinargerð. Væri hún betri myndi ég skoða það.