148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er strikað undir sérstaklega í greinargerðinni:

„Hið síðastnefnda er lykilþáttur í að opna íslenskan markað fyrir þjónustu sem rutt hefur sér til rúms erlendis hjá fyrirtækjum á borð við Uber og Lyft, en slík þjónusta er hvort tveggja byggð á grundvelli samningsfrelsis og á kostum deilihagkerfisins.“

Bara þessi setning ein segir að það er verið að slaka á vegna þess að við vitum hvernig þetta er hjá þessum fyrirtækjum. Ég tek eiginlega undir það með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, þetta hefur ekkert með deilihagkerfi að gera.

Ég segi samt að það blundar í mér frjálshyggjumaður, það blundar í mér íhaldsmaður. Ég hef kannski sagt það áður, kannski oftar en einu sinni hér í ræðustólnum, að ég er meira og minna að hugsa um neytandann, ekki bara hvað hann fær þjónustuna ódýrt, heldur hvernig ég geti tryggt að hann fái góða þjónustu, örugga þjónustu og hættulausa þjónustu o.s.frv. Það er margt annað í þessu heldur en bara krónurnar og aurinn. Mér finnst það svo mikilvægt.

Þess vegna fannst mér svo skrýtið að ég skyldi allt í einu vera sammála hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni nánast í hverju orði, sem við erum kannski ekki vanir alla jafna, en skynsemin er alltaf einhvers staðar, einhvers staðar verðum við að vera skynsöm. Og ég legg mikið upp úr því að fara ekki einhverja leið sem við missum tökin á og er til skaða bara af því að það er í nafni einhvers konar frjálslyndis af þessu tagi.