148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:21]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið virkilega áhugaverð umræða hér í kvöld um þetta mál. Ég er auðvitað mjög ánægð með að þáverandi samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, hafi skipað starfshóp um breytingar á markaði leigubílaþjónustu, vegna þess að við þurfum samkvæmt ákvæðum EES-samningsins að breyta þessu, en ekki síst vegna þess að kerfið eins og það er í dag felur í sér einokun og stöðnun og skort á allri nýsköpun. Það kemur auðvitað tækni við af því að á slíkum einokunarmarkaði kemur tæknin ekki og þróast ekki nægilega í takt við samtímann.

Hér hefur margt áhugavert komið fram og merkilegt að því sé haldið fram að oft sé lítil eftirspurn eftir þjónustu leigubíla, en í sömu andrá er því haldið fram að fjöldi þeirra sem keyra leigubíla myndi stóraukast við breytingar. Ég skil það þannig að hér sé verið að tala í pontu Alþingis um að almenningur sé svo innilega illa gefinn að hann hrannist inn í atvinnugrein sem lítil eða engin eftirspurn er eftir. Ég tel bara almenning ekki svo illa gefinn. Ég hef engar, ekki einar einustu áhyggjur af því að hér muni allir landsmenn fara að bjóða upp á leigubílaþjónustu ef engin eftirspurn er eftir henni.

Svo finnst mér áhugavert að skoða hvernig þessi leigubílalög urðu til á því herrans ári 1952, þá var faðir minn ekki einu sinni fæddur. Ég ætla að fá að vitna, með leyfi forseta, í greinargerð með lögunum:

„Þetta er flutt að tilmælum stjórnar Bifreiðastjórafélagsins Hreyfils og Vörubílastjórafélagsins Þróttar.“

Lögin voru sett til þess að vernda hagsmunahóp. Það var bara sett í fyrstu tvær línur greinargerðarinnar, að beiðni lítils hóps, hagsmunahóps.

Ég vonast til að það náist víðtæk sátt í þeirri nefnd sem starfar í samgönguráðuneytinu um breytt kerfi og ég held að bílstjórar ættu líka að fagna því að hafa aukinn sveigjanleika í þjónustuframboði og verðlagningu. Þeir gætu skapað sér mun fleiri tækifæri til að mæta eftirspurn frá almenningi, sem ég er ekki í nokkrum vafa um að myndi breytast talsvert ef við myndum afnema þann einokunarmarkað sem við búum við í dag. Það væri frábært ef fleiri heimili myndu nota leigubíla í auknum mæli, en til þess þarf að auka sveigjanleika í einmitt þessu tvennu, þjónustu og verðlagningu. Það myndi draga úr eftirspurninni sem svarta hagkerfið mæti í dag, auðvitað án þess að við teljum að við þurfum að gera bofs í því.

Þetta snýst í rauninni um atvinnufrelsi, tækifæri til að þróa nýjar lausnir, valfrelsi einstaklinga og að takmarka inngrip ríkisins í heilbrigða samkeppni. Allra síst snýst þetta um eitthvert eitt fyrirtæki sem hefur auðvitað gripið tækifærið í öðrum löndum. Þetta á alls ekki að snúast um eitt fyrirtæki, þetta snýst aðeins um að auka atvinnufrelsi og fjölbreytileika á þessum markaði.

Það er eitt annað sem ég vil nefna, þó að það væri hægt að ræða þetta í allt kvöld eins og umræðan hefur gefið til kynna. Mér finnst merkilegt hvernig sé hægt að komast að því að það sé meira jafnræði á milli aðila ef það eru fjöldatakmarkanir, heldur en ef allir sem uppfylla málefnaleg gæðaskilyrði mættu taka þátt. Auðvitað viljum við setja einhver eðlileg skilyrði, það er eitthvað sem við eigum að komast að samkomulagi um í góðri vinnu sem fer fram í ráðuneytinu. Þótt við séum eitthvað ósammála hvernig þau skilyrði eigi að vera, þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni, þá á það samt ekki að stoppa það að fólk styðji það að breyta þessum einokunarmarkaði og styðji meira frelsi á markaðnum af því að fyrir því eru margvísleg rök.

Það væri auðvitað að mínu mati tími til kominn að þeir sem vilja viðhalda svona kerfum, sem ég vil meina að séu forneskjuleg kerfi með takmörkunum og hindrunum, færi fyrir því einhver sannfærandi rök af hverju svo ætti að vera áfram, í stað þess að við sem viljum einmitt auka frelsi á markaðnum þurfum alltaf að færa fram bestu og öll rökin í umræðunni til að hlutirnir taki einhverjum eðlilegum breytingum sem Ísland ætti auðvitað löngu að vera búið að gera árið 2018.

Að lokum vil ég segja, virðulegur forseti, að um leigubílaþjónustu og akstur eiga að gilda sömu lögmál og reglur og gilda um aðra verslun og þjónustu. Fyrsta skrefið er að afnema þær hömlur sem ríkið hefur sett á greinina. Það að hafa af þessu stórkostlegar áhyggjur eins og ég nefndi í byrjun út af breytingum á þessum markaði og frelsi, sem sumir vilja setja hér í gæsalappir, um að þá verði allt of mikið af leigubílaþjónustu er eins og að hafa í alvörunni áhyggjur af því að hér komi of margar hárgreiðslustofur, eða of margar fiskbúðir þannig að við viljum setja á það einhverjar fjöldatakmarkanir.

Það væri fróðlegt að þeir sem mæla gegn breytingum á þessum markaði myndu segja mér af hverju þeir vilja hafa fjöldatakmarkanir á eðlilegri verslun og þjónustu, líkt og þeir eru að verja á þessum markaði, ef þeir geta ekki staðið með því að setja fjöldatakmarkanir á aðrar þjónustugreinar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)