148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:29]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gæti ekki verið meira sammála hv. þingmanni, ég þakka henni fyrir prýðisgóða ræðu, hefði ekki getað orðað þetta mikið betur sjálfur. Mér leikur því forvitni á að vita hverju það sætir að flokkur hv. þingmanns hefur ekki viljað vera með á þessu ágæta máli. Ég játa að ég þekki ekki alveg atburðarásina í kringum það þegar meðflutningsmönnum var safnað, en ég get ekki lesið annað út úr orðum hv. þingmanns en að hún sé alla vega hjartanlega sammála málinu og væntanlega reiðubúin að styðja það.

Ég veit að samflokksmönnum hv. þingmanns þykir gaman að stríða okkur Viðreisnarfólki með því að segja að Viðreisn sé eins máls flokkur sem geri lítið annað en tala fyrir Evrópusambandsaðild, og ef við höfum um eitthvað annað tala þá séu það gömul frelsismál frá Sjálfstæðisflokknum eins og þetta. Mér líður stundum eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé með nokkur frelsismál uppi í hillu sem honum finnist gott að taka niður með reglulegu millibili, en passi sig á að klára ekki af því það er svo gott að geta flutt þau aftur og aftur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er þá ekki rakið tækifæri, í þessu fína máli, sem ég held að við séum alveg hjartanlega sammála um að sé hið besta mál að klára, að við tökum höndum saman um að reyna að ljúka þessu? Því ég er svo hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ríkið á ekki að vera að reyna að stýra mörkuðum með fjöldatakmörkunum. Við getum sett mörkuðum almennar starfsreglur, en okkur dytti aldrei í hug að reyna að stýra matvörumarkaðnum með því að takmarka fjölda verslana, eða hárgreiðslustofa, eins og hv. þingmaður nefndi. Það á auðvitað heldur ekki við um leigubíla.