148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér ákveðnar efasemdir, þegar að þessu máli kemur, í ljósi þess að flokkur hv. þingmanns hefur verið í ríkisstjórn í nærri aldarfjórðung, ef ég man rétt, án þess að ná miklum árangri í þessu, þar af lengst með Framsóknarflokknum sem fer með forræði í þessu máli og er nú í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum ásamt Vinstri grænum. Ég verð að viðurkenna að af málflutningi fyrrverandi Framsóknarmanna, getum við sagt, og Vinstri grænna að dæma fer ekki mikið fyrir frelsishugsuninni þar. Ég deili kannski ekki bjartsýni hv. þingmanns á að frjálslynd útgáfa af þessu máli komi út úr vinnunni í samgönguráðuneytinu. Það kæmi mér þá skemmtilega á óvart ef það gerðist. Ég skal ekkert útiloka það.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi sannfæringu fyrir því að þar verði í það minnsta afnumin þessi fjöldatakmörkun sem er grundvallarstefið í þingsályktunartillögunni og í raun meginsamkeppnishindrunin í núverandi löggjöf, þ.e. að ríkið setja fjöldatakmarkanir þarna.

Ég tek hv. þingmann bara á orðinu með það að verði svo ekki muni hv. þingmaður styðja þessa þingsályktunartillögu. Af því að það er alltaf verið að bjóða mér sæti í öðrum stjórnmálaflokkum þá er ágætt, í ljósi þess að hv. þingmaður er sammála okkur í Viðreisn, að geta þess að það er alltaf pláss fyrir gott fólk þar líka.