148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar fyrir hönd fyrsta flutningsmanns og samflokksmanns, Hönnu Katrínar Friðriksson, að þakka fyrir mjög góða umræðu um þetta mál, skemmtilega umræðu. Þetta er búin að vera lifandi umræða, sérstaklega seinni hluti hennar. Ég verð að segja eins og er að það birti alla vega talsvert yfir mér þegar var komið fram yfir miðbik umræðunnar og frelsinu talsvert hærra undir höfði gert eftir því sem á hana leið.

Ég vona svo sannarlega að þingið geti náð saman um þær breytingar sem ég held að séu algerlega nauðsynlegar á þessu sviði. Eins og komið hefur ágætlega fram í ræðum fjölmargra þingmanna er mjög mikilvægt að gera greinarmun á þeim kröfum sem við gerum til starfsemi á markaði sem þessum, þeim kröfum sem við gerum til bílstjóra sem starfa sem atvinnubílstjórar og svo aftur þeim skorðum sem við reisum við samkeppni á markaðnum.

Að sjálfsögðu eigum við, og hér er ekki gert ráð fyrir neinu öðru, að gera sömu kröfur til allra þeirra sem á markaðnum standa. Við erum eingöngu að segja að það er ekki í þágu hagsmuna neytenda, í þágu hagsmuna frjálsrar samkeppni, að reisa samkeppnisskorður sem felast í fjöldatakmörkunum á neinum markaði og ekki heldur þessum.

Hefðarréttur, það að þetta hafi alltaf verið svona, jafnvel það sem kom fram í máli hv. þm. Brynjars Níelssonar um að það sé svo góður karakter í þeim sem starfa á markaðnum — sem ég dreg ekki í efa, raunar má segja að það sé söknuður að mörgum skemmtilegum karakterum úr mörgum góðum atvinnugreinum í gegnum tíðina sem jafnvel hafa lagt upp laupana — þetta held ég að sé ekki ástæða til þess að vera með samkeppnishindranir eða takmarkanir af hálfu ríkisins.

Það er löngu tímabært að breyta þessu. Hér voru nefnd nokkur ágæt dæmi um hvernig okkur hefur miðað í frelsisátt. Það er svolítið sorglegt til þess að hugsa að minna hefur farið fyrir því á undanförnum árum, jafnvel áratugum, að okkur hafi fleygt eitthvað virkilega fram. Það má raunar segja að sér í lagi þegar kemur að samkeppni og samkeppnislöggjöf okkar hafi því miður þurft utanaðkomandi krafta til að ýta virkilega við okkur. Stærstu skrefin sem við höfum stigið í umbótum í samkeppnisumhverfi eru í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þegar við höfum hreinlega verið dæmd til að laga hlutina af hálfu ESA eða EFTA-dómstólsins.

Ég held að það sé löngu tímabært að við sýnum það saman hér á þingi að við erum sjálf fær um að gera nauðsynlegar umbætur í átt að aukinni samkeppni þar sem við eigum auðvitað að vera með einn meginútgangspunkt: Valfrelsi neytenda, að við trúum því að samkeppni á markaði sé neytendum til hagsbóta.

Ég þakka enn og aftur fyrir mjög góða umræðu og legg til að málinu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og vonast eftir góðri umfjöllun í nefndinni um þetta mikilvæga og góða mál.