148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[18:58]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ágætar spurningar í þessu andsvari um það af hverju er bara lagt til að 95. gr. almennra hegningarlaga falli brott.

Í stuttu máli er því til að svara að kveikjan var það sem ég rakti í máli mínu, þetta mál sem kom upp í Þýskalandi og í kjölfarið á því tölvupóstur þar sem var vakin athygli þingmanna á sérstaklega þessu tjáningarfrelsisákvæði sem 95. gr. nær yfir. Það er í rauninni stutta svarið, það er þess vegna.

Ég tel hins vegar rétt og eðlilegt að skoða allan þennan kafla í almennu hegningarlögunum og það voru fín dæmi sem hv. þingmaður nefndi í sínu máli, þannig að ég væri opin fyrir því að halda áfram skoðun á þessum kafla laganna. En mig grunar að það myndi kalla á enn meiri umræðu, þannig að ég myndi helst vilja að við byrjuðum á því að fella þessa lagagrein út, því að akkúrat þetta mál hefur fengið talsverða umræðu í samfélaginu sem og hér á þinginu. Það á samt alls ekki að koma í veg fyrir það að við höldum áfram með lagatiltekt sem ég held að sé alveg tímabært hvað þessi mál varðar.