148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er síður en svo andsnúinn þessu frumvarpi. Ég er mjög hrifinn af tjáningarfrelsi. Ég get upplýst hv. þingmann um að ég var verjandi annars þeirra manna sem köstuðu bensínsprengju í ameríska sendiráðið á sínum tíma og ég barðist á hæl og hnakka fyrir tjáningarfrelsinu. Ég vann meira að segja málið í héraði en tapaði því 4:1 í Hæstarétti.

Ég er hins vegar nokkuð sannfærður um að hrifning hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur á tjáningarfrelsinu er heldur valkvæðari en hjá mér. Þessi umrædda 95. gr. segir að viðurlög séu við því að smána opinberlega erlenda þjóð og þjóðhöfðingja, en annað ákvæði í hegningarlögum, 233. gr. a, tekur á því að refsivert sé að hæðast að einhverjum vegna þjóðernis.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún væri þá ekki bara sátt við það, af því að ég er að undirbúa frumvarp til að taka þá grein út, og tilbúin til að vera með mér á slíku frumvarpi — til að tjáningarfrelsið fái almennilega að njóta sín, sem ég tel afar mikilvægt. Mér sýnist að dómstólar hafi túlkað þessa grein á þann veg að tjáningarfrelsinu er mjög mikil hætta búin. Þess vegna spyr ég hvort til álita kæmi hjá hv. þingmanni að vera tilbúin til að fella þá grein líka niður.