148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er skemmtileg forsaga sem heyrðist í andsvari hv. þingmanns sem átti sér annað líf sem lögmaður áður en hann tók til starfa hér á Alþingi. Þetta er að mínu mati fínn punktur sem hv. þingmaður veltir hér upp varðandi tjáningarfrelsið og mörk þess, hvað megi og hvað megi ekki.

Já, mig grunar að við séum ekki á nákvæmlega sömu blaðsíðunni þar. Ég tel að taka þurfi tillit til fleiri þátta, sér í lagi þegar kemur að fólki sem tilheyrir minnihlutahópum eða viðkvæmum hópum; að þeir geti þurft vörn í lögum. En þau rök tel ég alls ekki eiga við um þjóðarleiðtoga sem eru, eins og felst í orðanna hljóðan, leiðtogar og þar með í valdastöðu í samfélaginu en hafa, eins og lögin eru hér útbúin, aukavörn umfram aðra í samfélaginu. Ég teldi að það mætti þá frekar hugsa hvort þessu ætti að vera akkúrat öfugt farið, jafnvel að hugsa sér að þeir sem tilheyra minnihlutahópi hefðu einhvers konar aukavörn en þjóðarleiðtogarnir þyrftu ekki á því að halda stöðu sinnar vegna.