148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að hafa þetta langt. Ég vildi bara nefna örstutt, eins og ég geri vanalega þegar þessi mál koma til afgreiðslu, að tjáningarfrelsi á Íslandi hefur aldrei verið í góðu standi. Við erum ekki framarlega í tjáningarfrelsismálum. Við erum mjög aftarlega. Ég ætla reyndar að láta það bíða betri tíma að fara enn og aftur yfir þau fjölmörgu mál sem þarf að laga hér á landi.

En mig langaði að koma hingað upp og þakka hv. flutningsmönnum þessa frumvarps fyrir að leggja það fram. Þetta er mjög þarft. Og það er mjög margt fleira sem þarf að endurskoða í almennum hegningarlögum. Ég vona að hún haldi áfram þessi venja, sem virðist vera að komast á, að við förum að tína út eitt og eitt vitleysisatriði í almennum hegningarlögum sem varða tjáningarfrelsi fólks.