148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

214. mál
[19:46]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segist ekki vera nógu vel að sér í kjarneðlisfræði, en það er ég. [Hlátur í þingsal.] Nei, ég biðst forláts, ég er það heldur ekki, virðulegur forseti. Ég þakka bara hv. þingmanni þessa ábendingu. Ég fullyrði það að hvorki ég né aðrir flutningsmenn þessa frumvarps viljum að einhver tvímæli séu um skilgreiningar og hvet hv. utanríkismálanefnd til að skoða þetta mál.

Ég vek þó athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu, af því að hv. þingmaður vitnaði til 9. gr., ef ég skildi hann rétt, er fjallað fyrst og fremst um losun geislavirks úrgangs, sem er í seinni hluta 9. gr., en svo er í frumvarpinu sjálfu talað um, með leyfi forseta:

„Öll umferð farartækja, sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang, er bönnuð innan hins friðlýsta svæðis, sbr. þó ákvæði 10. gr.“

Í 10. gr. er sérstaklega kveðið á um að heimilt sé að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð. Snúist þetta að einhverju leyti að efnum notuðum í friðsamlegum tilgangi, eins og læknisfræðilegum tilgangi, myndi ég halda að það þyrfti bara að skerpa á orðalaginu þannig að það falli að sjálfsögðu undir þau undanþáguákvæði við 9. gr. sem eru í 10. gr., eða að það þurfi einfaldlega að skerpa á ákvæði 9. gr.