148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Við fáum inn á borð til okkar hvern áfellisdóminn á fætur öðrum yfir stöðu mála og sums staðar er kerfið augljóslega að hruni komið og alls staðar er kallað eftir snörum viðbrögðum. Ég nefni samgöngukerfið þar sem við vitum af stórhættulegum og óboðlegum vegum víðs vegar um landið. Ég nefni flutningskerfi raforku, ég nefni skólakerfið, ég nefni eftirlitskerfin sem virðast aldrei virka og stofnanir sem ítrekað komast upp með að fylgja ekki eftir ákvörðunum ráðherra. Ég nefni áfellisdóm Ríkisendurskoðunar yfir heilbrigðiskerfinu okkar þar sem sagt er beinum orðum að Sjúkratryggingar Íslands hafi einfaldlega ekki yfir að ráða nauðsynlegri fagþekkingu til að annast greiningar, gerð og eftirlit með framkvæmd samninga og að samningar hafi verið gerðir sem eru ekki í samræmi við lög.

Herra forseti. Þetta er ekki í lagi. Ég nefni hergagnaflutninga um Ísland sem stjórnvöld völdu að samþykkja, herra forseti, völdu að samþykkja. Hvernig stendur á þessu? Hverjum er þetta um að kenna? Jú, þeim stjórnmálaflokki sem hefur setið nánast óslitið við völd á lýðveldistíma, stjórnmálaflokki sem enn situr við völd, nú í skjóli Vinstri grænna.

Nú rétt fyrir þingfund bárust þær fréttir að ríkisstjórnin hefði enn rétt sloppið með skrekkinn en staðreyndin er samt sem áður sú að aðildarfélög með 67% félagsmanna ASÍ vilja segja upp kjarasamningum.

Herra forseti. Ríkisstjórnin ræður ekki við að koma á félagslegum stöðugleika, hún ræður ekki við að afla tekna til að bæta lífskjör launafólks og hún ógnar efnahagslegum stöðugleika.

Hvað ætlum við alþingismenn að gera til að bregðast við? Hvernig ætlum við að mæta kröfum fólks um bætt lífskjör? Engar áhyggjur, herra forseti, hæstv. forsætisráðherra ætlar að skipa nefnd.