148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í morgun komum við saman í utanríkismálanefnd og þar var akkúrat til umræðu hið ömurlega mál sem við höfum nú orðið vitni að. Og það sýnir sig sannarlega enn og aftur að það eru fjölmiðlarnir sem komu því almennilega á framfæri, það var Kveikur sem sagði okkur frá því í gærkvöldi að íslenskt flugfélag væri að flytja gögn til stríðshrjáðra landa þar sem verið er að strádrepa saklaust fólk.

Þetta er sláandi, herra forseti. En hver ber ábyrgðina?

Hér hefur Samgöngustofa verið stimpilpúði fyrir þær undanþágur sem Air Atlanta bað um til að fá að flytja hergögn undir íslenskum fána. Staðreyndin er sú að pólitíska ábyrgðin liggur hjá hæstv. samgönguráðherra sem var gestur á fundinum hjá okkur í morgun í gegnum síma. Brugðist var skjótt við og það er vel. Það er gott að við skulum vera vakandi og vilja taka á þessu. En af hverju eftir 25 sendingar með hergögn, sem við vitum um nú?

Það var þegar þriðja beiðnin kom um flutninga á táragasi til Venesúela eða ég veit ekki hvert, að allt í einu var stoppað og sagt: Nei, hingað og ekki lengra. Nú vita þau eitthvað. Það er að komast upp um okkur. Við verðum að hætta núna. Þetta er of langt gengið.

Ég kalla eftir pólitískri ábyrgð. Ég kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra, sem stýrir núverandi ríkisstjórn, fari að axla ábyrgð á því sem er að gerast í kringum okkur. Og að hæstv. samgönguráðherra fari að sýna það að hann sé sá sem stjórnar og er yfir Samgöngustofu. Það er kominn tími til, hæstv. forseti, að við öxlum ábyrgð og pólitísku ábyrgðina sem á að vera til staðar hér og nú.