148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég ætla að gera það sama og síðasti ræðumaður. Ég vil sérstaklega hrósa formanni utanríkismálanefndar fyrir mjög snaggaraleg viðbrögð varðandi óskir okkar í nefndinni um að fara yfir vopnaflutningamálið. Það gefur fyrirheit um að við ætlum að bæta hér vinnubrögð. Ég þakka henni sérstaklega fyrir það, enda hefur hún unnið vel, alla vega það sem af er þingi.

En ekki er hægt að segja það sama um íslenska stjórnsýslu. Fundurinn í utanríkismálanefnd í morgun var ákveðin vonbrigði, verð ég að segja, en hann vakti líka mjög mikla undrun varðandi þetta mál. Það er eins og vinstri höndin í íslensku stjórnkerfi viti ekki hvað sú hægri gerir í öllu þessu máli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum um hugsanlega vopnaflutninga í gegnum landið. Við munum öll umræðuna um hugsanlega kjarnorkuvopnaflutninga á íslenskri grundu. Fór ekki íslenska kerfið yfir það þá hvernig hægt væri að flytja vopn til landsins, eða að hafa Ísland sem millilið?

Hvar eru viðvörunarbjöllurnar? Hvar er stjórnkerfið til þess að taka á því sem þetta mál endurspeglar? Við Íslendingar virðum ekki alþjóðlegar skuldbindingar okkar, það er alveg grátlegt, sérstaklega þegar kemur að því að ýta undir mannúð, mildi og frið í heiminum. Svo er hæstv. utanríkisráðherra hér úti um allar koppagrundir, sem er fínt, mér finnst að hann eigi að vera þar sem mest. En hann hefur sérstaklega undirstrikað áhyggjur sínar af Jemen, og kemur síðan heim í allt að því handónýtt kerfi.

Eins og ég segi veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri gerir. Við Íslendingar verðum að fara að tileinka okkur það, ekki síst á hinu háa Alþingi, að fara að virða alþjóðlegar skuldbindingar. Þegar kemur að því verðum við að hafa það sem leiðarljós okkar í utanríkisstefnu okkar. Og fyrir okkur sem erum talsmenn vestrænnar samvinnu, sérstaklega á sviði öryggis- og varnarmála, er sorglegt að upplifa svona trekk í trekk. Það er eins og menn vakni ekki fyrr en fréttaskýringaþátturinn Kveikur kveikir hjá fólki. Það sýnir sérstaklega (Forseti hringir.) að við þurfum að styðja vel við fjölmiðlun, helst frjálsa fjölmiðlun í landinu. Þegar við skoðum alþjóðlegar skuldbindingar okkar verðum við að hafa hugfast að við erum að berjast fyrir lýðræði, frelsi, friði og mannúð í heiminum. Ekki gleyma því.