148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það er ástæða til að taka undir með mörgum þeirra þingmanna sem hafa talað hér á undan mér, en ég kem hingað upp til þess að vekja athygli þingsins á öðru máli, vekja athygli á því að það liðu ekki margir dagar frá því að ríkið í rauninni gaf eftir stöðu sína í Arion banka þar til fór að koma í ljós að allt það sem við í Miðflokknum höfðum varað við varðandi þetta mál allt saman er að rætast.

Aðeins nokkrum dögum síðar, í sömu viku og ríkið seldi sinn hlut og sleppti hendi af bankanum, er það mat ráðgjafa Arion banka að það sé hægt að taka 80 milljarða kr. út úr bankanum í formi arðgreiðslna, 80 milljarða kr., einn nýjan Landspítala. Að auki er komið á daginn eins og bent hafði verið á að dótturfélög bankans eru mun meira virði en þau eru skráð í bókum bankans.

Fléttan gengur öll eftir nákvæmlega á þann hátt sem varað var við. En íslensk stjórnvöld hafa hins vegar í hverju skrefi túlkað beiðni þessara aðila þeim í hag en túlkað rétt ríkisins á þann hátt að hann væri nú kannski takmarkaður, þ.e. að þegar kemur að því að verja almannahagsmuni treysta menn sér ekki til þess, þá sjá þeir alla vankanta á því.

Þegar vogunarsjóðir, alræmdir vogunarsjóðir jafnvel, koma með kröfur um að snúið sé frá þeim áformum sem starfað hefur verið eftir hér undanfarin ár treysta menn sér heldur ekki til þess að mótmæla því.

Það er því orðið ljóst, virðulegur forseti, að íslenskur almenningur hefur tapað tugum milljarða á því hvernig þessi ríkisstjórn hefur haldið á málefnum Arion banka, hefur tapað líklega sem nemur einum nýjum Landspítala eða öðrum samanburði við þær upphæðir sem hér um ræðir. Það er mikið áhyggjuefni, herra forseti, að við skulum sitja uppi með ríkisstjórn sem getur ekki varið (Forseti hringir.) grundvallarhagsmuni almennings í landinu.