148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil hér beina sjónum okkar að þeim sem eiga í vanda með að eignast börn. Hérlendis kemur samfélagið alls ekki nægilega til móts við fólk með ófrjósemisvanda. Fyrir fyrstu glasa- eða tæknifrjóvgunarmeðferð greiða pör alfarið sjálf um hálfa milljón króna. En ríkið greiðir um 240.000 kr. fyrir næstu þrjár meðferðir og síðan ekki söguna meir. Ef viðkomandi par á barn saman fyrir er enga aðstoð að fá frá samfélaginu og það greiðir allan kostnað sjálft.

Í löndunum í kringum okkur er stuðningur við fólk sem á í erfiðleikum með að eignast börn allur annar og meiri og víða greiðir ríkið fyrstu þrjár meðferðir að fullu.

Hvað er meira viðeigandi á þessum blíðviðrisdegi þegar okkur finnst sem örstutt sé í að fyrstu sprotar vorsins fari að sjást en að taka einmitt til umfjöllunar kviknun nýs lífs? Hver er okkar algengasta mynd af fallegu mannlífi nema einmitt þar sem börn leika aðalhlutverkið? Flestir gera ráð fyrir því frá barnæsku að þegar þeir verði fullorðnir stofni þeir fjölskyldu og verði foreldrar. Það er því mikið áfall fyrir fólk þegar það kemst að því að það þurfi aðstoð við barneignir. Talið er að einn af hverjum sex glími við ófrjósemisvanda. Það eru ekki allir svo heppnir að geta látið draum sinn rætast um afkomendur án aðstoðar tækninnar og við tekur erfið þrautaganga vona og vonbrigða.

Við þekkjum öll einhvern sem hefur glímt eða glímir við þennan vanda. Nú þegar er öldrun þjóðanna eitt helsta vandamál vestrænna samfélaga í lýðfræðilegum skilningi og barneignum hefur líka snarfækkað. Við þær aðstæður hefði maður talið það bæði sjálfsagt og eðlilegt að aðstoða fólk við slík vandkvæði sem ég er hér að fjalla um, efnahagslega hagkvæmt. En það er öðru nær. Þessi hópur er utan gátta í heilbrigðiskerfinu en hann er þögull enda eru þessi vandkvæði feimnismál hjá mörgum og flestir bera harm sinn í hljóði og fara í hverja meðferðina á fætur annarri. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Þessi hópur er verulega afskiptur í heilbrigðiskerfinu. Við þurfum að gera betur, miklu betur fyrir þennan hóp.